„Við búum bara ekki í sanngjörnu samfélagi þegar 370 þúsund krónur eru byrjunarlaun hjúkrunarfræðings. Þegar fólk á að lifa á örorku, sem er 129 og 180 þúsund á mánuð. Þegar við leggjumst á koddann í kvöld, þá eigum við að skammast okkar.“
Á þessum orðum endaði viðtal Egils Helgasonar við rithöfundinn Mikael Torfason í Silfrinu. Viðtal sem hefur vakið gífurlega athygli og nær öruggt að það hefur komið fyrir auga allra þeirra sem notað samskiptamiðilinn Facebook. Fær Mikael mikið hrós fyrir framgöngu sína. Í Silfrinu ræddi Mikael um fátækt á Íslandi en hann hefur undanfarið kynnt sér stöðu fátæks fólks á Íslandi og gert þætti sem nú eru fluttir á Rás 1. Mikael sagði einnig:
„Þetta er bara fólk sem við höfum skilið eftir á bótum sem eru skammarlegar. Og við viljum að þær séu skammarlegar, að þær séu lágar, því við viljum ná að kúga þetta fólk til að hætta þessu.“
Hefur framgöngu Mikaels verið hrósað í hástert en í þeim hópi er Illugi Jökulsson en Illugi og Mikael ritstýrðu DV. „Helvíti er þetta flott hjá honum Mikka. Stjórnarandstaðan er hins vegar að dusta rykið af fötunum sínum. Ekki þarf að orðlengja um ríkisstjórnarfólkið,“ segir Illugi á Facebook. Þá sagði Gunnar Smári Egilsson lærifaðir Mikaels í blaðamennsku að Mikael hefði flutt eldmessu í þættinum og verkalýðsforinginn Vilhjálmur Birgisson segir í pistli á Pressunni:
Fyrirgefið orðbragðið, en djöfull er ég sammála Mikael Torfasyni að við eigum að skammast okkur hvernig við komum fram við þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.
Þá sagði Mikael einnig að íslenskir kjósendur ættu að skammast sín fyrir að kjósa yfir sig verstu ríkisstjórn sem setið hefur í alþingishúsinu.
Ekki eru allir jafn hrifnir en Bergsteinn Sigurðsson sem starfaði lengi á Fréttablaðinu við afar góðan orðstír og er nú einn af umsjónarmönnum Kastljós tjáir sig á Facebook-síðu Illuga Jökulssonar. Þess má geta að Mikael var ritstjóri Bergsteins á Fréttablaðinu. Mikael var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins þann 5. mars 2013. Í maí sagði Bergsteinn upp á Fréttablaðinu. Þá var Mikael nokkuð umdeildur á meðal starfsmanna í Skaftahlíð. Segir Bergsteinn að skoðun Mikaels hafi verið önnur þegar hann sat hinum megin við borðið í valdastöðu á Fréttablaðinu. Bergsteinn segir um framgöngu Mikaels í Silfrinu:
„Mikið vatn runnið til sjávar síðan ég hlustaði á Mikka lýsa því að 470 þúsund kall væru bara helvíti fín laun fyrir blaðamann með níu ára starfsaldur á sama stað. (Fyrir nýliða þótti 350 þús helvíti rausnarlegt.)“
Bendir Bergsteinn á að þetta hafi verið fyrir aðeins fjórum árum síðan. Segir Bergsteinn að viðsnúningur Mikaels nú minni nánast á Sál frá Tarsus. En fyrir þá sem ekki vita gekk Sál hart fram í að ofsækja kirkjuna á tímum Jesús, ofsótti fólk sem var varpað í fangelsi og drepið, konur og karlar. Seinna eftir kynni við Jesú gerðist hann kristniboði af þeim sama krafti og hann hafði áður ofsótt hina kristnu. Bergsteinn segir að Mikael hafi lagt sitt af mörkum í að halda blaðamennsku í láglaunastétt.
„Það var fyrir fjórum árum síðan, á sama tíma og hann tók til við að reka allt fólk með reynslu (og laun yfir 470 þús væntanlega) af Fbl. og lagði sitt af mörkum í að halda blaðamennsku sem enn meiri láglaunastétt en hún hefur verið (væntanlega og vonandi hafa hans eigin laun verið eitthvað ríflegri).“
En eins og áður segir hefur viðtalið við Mikael vakið mikla athygli og verið deilt víða. Taka margir undir málflutning hans og gagnrýna ríkisstjórnina og launakjör alþýðunnar. Þætti Mikaels um fátækt má svo hlusta á hér.