Um fjögur hundruð stjórnmálakonur og þjóðarleiðartogar frá um hundrað löndum sóttu ársfund Women Political Leaders (WPL) í Hörpu dagana 28.-30. nóvember síðastliðinn. Ársfundurinn var haldinn í samstarfi samtakanna, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands.
Meðal gesta voru Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands, Amina Mohammed, vara-aðalframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna, Dalia Grybauskaite, forseti Litháen, Iveta Radicova, forsætisráðherra Slóvakíu, Kolinda Grabar-Kiarovic, forseti Króatíu, Marie Louise Preca, forseti Möltu, og Paula Cox, forsætisráðherra Bermúda, auk fjölda fyrrum forseta og forsætisráðherra.
Viðfangsefni fundarins voru margvísleg og var meðal annars rætt um stríðsglæpi gegn konum og þátttöku kvenna í friðarviðræðum, stjórnmálaþátttöku og efnahagslega valdeflingu og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda.
Fyrrverandi ráðherra jafnréttismála, Þorsteinn Víglundsson, tók þátt í pallborðsumræðum um reynslu leiðtoga af störfum á sviði jafnréttismála og hvaða leiðir séu færar til að ná enn betri árangri í málaflokknum. Hápunktur fundarins var þegar Katrín Jakobsdóttir mætti á svið ásamt fyrrum forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur og var fagnað með standandi lófaklappi af ráðstefnugestum sem nýjum forsætisráðherra Íslands.
Vigdís færði Katrínu óskir um velfarnaðar í starfi og bauð hana velkomna í Heimsráð kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) sem hún stofnaði ásamt öðrum kvenleiðtogum árið 1997 og í eiga sæti starfandi og fyrrverandi forsætisráðherrar og forsetar úr röðum kvenna.
Sameiginlegur kvöldverður var haldinn í Hafnarhúsinu á miðvikudagskvöldið, undir kraftmiklum söng karlakórsins Esju, sem fékk dynjandi lófaklapp gesta fyrir flutning sinn á Hraustum mönnum og Íslandi (Þú álfu vorrar).