Samkvæmt heimildum Eyjunnar gætir nokkurs titrings meðal þeirra sem eiga hagsmuna að gæta í laxeldi, ekki síst á vestfjörðum, vegna skipunar nýs umhverfisráðherra, Guðmundar I. Guðbrandssonar. Guðmundur er fyrrum formaður Landverndar sem í krafti þess embættis barðist hart gegn laxeldi, vegi um Teigsskóg og einnig byggingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á vestfjörðum.
Einar K. Guðfinnsson er formaður landssambands fiskeldisstöðva. Hann telur ekki að stjórnarsáttmálinn setji laxeldi á vestfjörðum, eða austfjörðum, í uppnám:
„Nei mér finnst hann ekki gefa það til kynna. Auðvitað ber hann þess merki að um málamiðlun er að ræða. En að mínu mati er það viðundi málamiðlun. Það hefur að vísu gengið hægt að fá leyfi, en það er augljóst mál að ekki er verið að stöðva fiskeldi.“
Þá segir Einar að lög um málsmeðferð laxeldis séu afar skýr:
„Það eru í gildi ákveðin lög sem fiskeldinu ber að fara eftir. Þar er kveðið skýrt á um alla málsmeðferð, sem er í höndum viðeigandi stofnana. Þar er ekki gert ráð fyrir beinum afskiptum stjórnmálamanna, hvorki ráðherra né annarra og það er ekkert í stjórnarsáttmálanum sem gefur til kynna að menn ætli að breyta þessum leikreglum. Ég geng útfrá að sömu leikreglur gildi áfram í fiskeldinu sem gilt hafa fram að þessu og geri það einnig í komandi framtíð. Þá er vert að geta þess að við fiskeldismenn höfum átt mjög gott samstarf við þá ráðherra sem fara með þá málaflokka er snúa að eldinu, bæði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Björt Ólafsdóttur. Og ég vænti þess sama um þá ráðherra sem nú taka við þessum málaflokkum,“
sagði Einar.
Í stjórnarsáttmálanum er sagt um fiskeldi :
„vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“