Árni Páll Árnason fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og ráðherra er ánægður með nýju ríkisstjórnina. Samfylkingin hefur lastað Vinstri græn og ákvörðun flokksins að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í stað þess að reyna til þrautar að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni, Pírötum, Framsóknarflokknum og Viðreisn, hafa margir áhrifamenn í Samfylkingunni sagt að VG hafi lagt upp með að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og að viðræðurnar til vinstri hafi verið sýndarviðræður. Logi Einarsson núverandi formaður hefur einnig gefið slíkt hið sama í skyn. Árni Páll er hins vegar ánægður:
Glaður að heyra af nýrri rikisstjórn undir góðri forystu. Katrín Jakobsdóttir er vinkona mín, hreinlynd, trygglynd, dugmikil og skörp svo af ber. Við verðum ekki svikin af henni í forsætisráðuneytinu,
segir Árni Páll á Fésbók. Segir hann að kosningar ráði ríkisstjórnarmynduninni:
Allir lýðræðislega þenkjandi stjórnmálamenn þurfa að virða kosninganiðurstöður og virða og vinna með þeim flokkum sem landsmenn kjósa. Það gerir VG nú, rétt eins og Björt Framtíð og Viðreisn gerðu fyrir ári, Sjálfstæðisflokkurinn gerði 2013 og Samfylkingin gerði árið 2007. Hættum svo að úthúða flokkum fyrir að gera það eina rétta: Að spila úr þeim spilum sem kjósendur skammta þeim.