fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Eyjan

„Það kom sendimaður frá London í gær“

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 29. nóvember 2017 20:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bresk samninganefnd kom hingað til fundar í nóvember 1975, en í forsæti hennar var Roy Hattersley aðstoðarutanríkisráðherra. Guðmundur segir hann hafa verið þvermóðskan ein á samningafundi og kvaðst ekki geta sætt sig við neitt minna en 110.000 tonna afla Breta innan 200 mílna. Þetta gat ekki orðið neinn grundvöllur samninga og ekki varð það til að bæta andrúmsloftið við fundarborðið í Ráðherrabústaðnum að sama dag og Hattersley lenti hér á landi höfðu varðskipin Þór og Týr skorið á togvírana hjá sínum togaranum hvor.

Þetta kemur fram í bókinni Maður nýrra tíma eftir Björn Jón Bragason, sem eru æviminningar Guðmundar H. Garðarssonar, alþingismanns og formanns VR. Guðmundur , sem er einn eftirlifandi þeirra sem sátu í samninganefnd um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur, segir svo frá í bókinni:

Roy Hattersley sýndi mikið óþol á samningafundinum í Ráðherrabústaðnum. Hann var greinilega illa upplýstur um alvarleika málsins og hafði fengið ranghugmyndir um svigrúm til hugsanlegra samninga. Hann setti meðal annars fram hugmyndir um árlegar veiðiheimildir breskra togara innan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar sem voru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Með ljúfmennsku og kurteisislegri framkomu Einars Ágústssonar utanríkisráðherra var Hattersley algjörlega afvopnaður. Hattersley rauk héðan í burtu sár og reiður. Segja má að þessi neikvæða nálgun Breta á fyrstu stigum málsins hafi ráðið úrslitum um forkastanlega framkomu bresku ríkisstjórnarinnar næstu misserin.

Roy Hattersley.

Guðmundur segir viðræður við Vestur-Þjóðverja hafa gengið mun betur. Í forystu fyrir samninganefnd þeirra fór Hans Jürgen Wischnewski, einn helsti ráðgjafi Helmuts Schmidt kanslara.

„Nýsestur við samningaborðið í Ráðherrabústaðnum breiddi hann út faðminn og mælti: „Ég hef nægan tíma til að ræða við Íslendinga um þetta mikla hagsmunamál beggja þjóða.“ Þetta vissi á gott. … Í Bretlandi voru viðhorfin harðari í okkar garð. Peningaöflin í City vildu engar breytingar. Þeirra menn áttu bara að fá að veiða áfram á Íslandsmiðum. Punktur.“

Guðmundur lýsir því síðan í bókinni hvernig tengsl hans í Vestur-Þýskalandi og sambönd við háttsetta menn í fleiri ríkjum austan hafs og vestan komu til góða við lausn deilunnar, en Guðmundur var á þessum tíma hvort tveggja í senn háttsettur starfsmaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og miðstjórnarmaður í Alþýðusambandi Vestur-Evrópu. Loks gátu viðræður hafist við Vestur-Þjóðverjana:

„Eftir að við höfðum snætt kvöldverð að loknum löngum samningafundum í Bonn, kom ungur fulltrúi í viðræðunefnd Vestur-Þjóðverja að máli við mig einslega og segir:

Það kom sendimaður frá London í gær til okkar og hann var með eina ósk: Að við skrifuðum ekki undir neinn samning við Íslendinga, fyrr en séð væri hvernig niðurstaðan yrði hjá Bretum.

Meira sagði Þjóðverjinn ekki við mig, en horfði á mig stundarkorn eins og til að fullvissa sig um að ég skyldi hvaða skilaboð voru hér undirliggjandi: Vestur-Þjóðverjar höfðu ákveðið að semja við okkur óháð afstöðu Bretanna.“

Guðmundur sagði Gunnari, Einari og Þórarni frá samtalinu. Þeim bar saman um hvernig rétt væri að túlka það. Íslendingarnir höfðu einnig fundið að Wischnewski, formaður samninganefndar Vestur-Þjóðverja, var alltaf mjög jákvæður og aðrir nefndarmenn þeirra síbrosandi á fundum.

Helmut Schmidt og Hans-Jürgen Wischnewski.

Morguninn eftir héldu samningaviðræður áfram, en aðeins tvö atriði stóðu út af, hvort Vestur-Þjóðverjarnir fengju að veiða á Víkurál fyrir vestan, og innan 200 sjómílna, suðvestur af Reykjanesskaga. Wischnewski stingur upp á því að þeir láti fiskifræðingana ræða sín á milli og féllust Íslendingarnir á þá tillögu.

„Ég var nú gamall sjómaður og þóttist hafa vit á þessu, hafði verið á togara að veiða karfa þarna við Víkurál og út af Reykjanesi, þar sem voru mikil karfamið. Ég sagði bara að það kæmi ekki til greina, því ekki yrði hægt að fylgjast með veiðunum. Ákveðið var að segja við Vestur-Þjóðverjana, að þetta gengi ekki. Kannski fengju þeir að veiða tímabundið í Víkurál, en alls ekki innan við 200 mílurnar á Reykjaneshrygg. Þetta var síðasti morgunn í viðræðulotunni. Annað hvort myndum við hafna þessum hugmyndum alfarið, eða þá að þeir fengju að veiða með mjög miklum takmörkunum.

Svo fóru sérfræðingarnir afsíðis og ræddu málin, eins og Wischnewski hafði stungið upp á. Hans G. Andersen kom til okkar skælbrosandi klukkustund síðar, en við hinir Íslendingarnir sátum inni í litlu fundarherbergi. Hans lokaði dyruum og sagði: „Ég hefði aldrei trúað því að hægt væri að komast svona langt á frekjunni. Þeir samþykktu bara allt saman!“ Þá er það sem Einar segir:

Það er bara kominn samningur! Nú hringi ég í Geir Hallgrímsson.

Þetta var ógleymanleg stund.“

Eftir að samkomulag hafði náðst við Vestur-Þjóðverja var vígstaða Bretanna orðin snöggtum verri. Þeir voru nú eina NATO-ríkið sem stóð í deilum við Íslendinga. Lyklunum var snúið Íslendingum í hag. Samkvæmt því var unnið áfram. Aldrei var efast um að sigur ynnist að lokum og aldrei kvikuðu stjórnarflokkarnir frá settu marki.

„Vestur-Þjóðverjar voru að safna prikum í alþjóðapólitíkinni. Svo lá í loftinu, þó svo að það væri ekki sagt, að Bandaríkjamenn voru orðnir afskaplega þreyttir á deilunni og hinni hörðu afstöðu Bretanna. Gyðingarnir í Ameríku gleymdu því aldrei þegar Tryggve Lie, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fól Thor Thors að gera tillöguna um stofnun Ísraelsríkis. Þá voru Gyðingarnir komnir með sína menn inn í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. George Marshall, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði verið á báðum áttum með það hvort rétt væri að samþykkja tillöguna um stofnun Ísraelsríkis. Gyðingarnir mundu þátt Íslendinga og höfðu enga velþóknun á Bretunum út af þessu öllu, en Bretarnir vildu ekki styggja Arabana vegna hagsmuna bresku olíufélaganna við Persaflóa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“