Ef kosið yrði til bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum myndu aðeins 34,9% kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en í sveitarstjórnarkosningunum 2014 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 73,15% fylgi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR fyrir vefinn Eyjar.net. Könnunin var gerð dagana 31. október til 23. nóvember, úrtakið var 910 manns 18 ára og eldri með lögheimili í Vestmannaeyjum, 507 svöruðu.
Athygli vekur að fylgið leitar ekki til stjórnarandstöðunnar í bænum en aðeins 7,7% myndu kjósa Eyjalistann. Rúm 15% myndu kjósa annað og 39,5% eru óákveðnir. 3,1% myndu ekki kjósa. Einnig vekur athygli að fleiri konur hyggjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn en karlar, eða 37% og 33%. Þegar aldurflokkarnir eru skoðaðir sést að eldra fólk er líklegra til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða 41% en rúm 28% á aldrinum 18 til 29 ára myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Eyjan bar þessar niðurstöður undir Elliða Vignisson bæjarstjóra í Vestmannaeyjum sem hló hátt við að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 35% fylgi:
Þú kannt stærðfræði er það ekki? Við erum með 60,3% samkvæmt könnuninni. Taktu frá auð atkvæði og teldu þau sem myndu kjósa, þá erum við með 60,3% atkvæða,
segir Elliði. Þegar reiknað er hlutfall Sjálfstæðisflokksins af þeim 270 sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Eyjalistann eða annað framboð mælist flokkurinn með 60,74%, þá eru ekki taldir með þeir 235 kjósendur sem eru óákveðnir, ætla ekki að kjósa eða tóku ekki afstöðu, ef þeir kjósendur eru taldir með þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 34,9% fylgi. Aðspurður hvers vegna svo margir séu óákveðnir segir Elliði það eðlilegt í aðdraganda kosninga:
Þetta eru nánast sömu tölur og fyrir fjórum árum. Við erum með meira fylgi núna. Að við skulum mælast með 60,3% er bara ótrúlegur árangur. Ég bara trúi þessum tölum ekki, ég held að við séum með lægra en þessi könnun sýnir.
Elliði sagði að fréttin sem birtist á vef Eyja með fyrirsögninni Mikið fylgistap hjá báðum flokkum bæjarins væri skrifuð af andstæðingi Sjálfstæðisflokksins 0g sagðist Elliði ekki trúa því að aðrir fjölmiðlar myndu túlka könnunina á sama hátt. Eyjan hafði samband við Tryggva Má Sæmundsson ritstjóra Eyjar.net sem sagði að fréttin hefði aðeins verið unnin upp úr tölum frá MMR:
Ég geri ekki annað en að fá MMR til að mæla þetta fyrir mig og svo birti ég það, ef hann [Elliði] trúir því ekki þá verður hann bara að eiga það við sig.
Tryggvi segir að í fyrra hafi Elliði mært könnun MMR sem gerð hafi verið fyrir vefinn Eyjar.net, þá hafi Elliði þakkað fyrir könnunina og sagt hana gefa vísbendingar um stöðuna.