Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði segir að birting símtals Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra og Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra um Kaupþingslánið fræga geri lánveitinguna enn óskiljanlegri en hún var áður en símtalið var birt.
Í símtalinu, sem átti sér stað 6. október 2008, ræddu þeir Davíð og Geir um neyðarlánalánveitingu til Kaupþings upp á 500 milljónir evra, sem kostaði íslenska skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna í tap.
Davíð útskýrði fyrir Geir að ef Seðlabanki Íslands geti „skrapað saman 500 milljónum evra“ fyrir Kaupþing séu þeir „komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.“ Davíð sagði svo að hann búist ekki við að geta fengið peningana til baka, Kaupþingsmenn haldi því fram en það séu ósannindi eða óskhyggja. Hafa verður í huga að það er hlutverk seðlabanka að lána til þrautavara. Davíð sagði að án góðra veða myndi bankinn ekki lána þessa fjármuni þar sem það myndi „setja íslenska ríkið á galeiðuna“:
Davíð: En við myndum skrapa, Kaupþing þarf þetta í dag til að fara ekki á hausinn.
Geir: Já, en það er spurning með þá, fer þá Landsbankinn í dag?
Davíð: Já, þá myndi hann fara í dag á hausinn væntanlega.
Geir: Og Glitnir á morgun?
Davíð: Og Glitnir á morgun.
Símtalið veitir engin svör
Stefán segir í pistli hér á Eyjunni að þetta fræga símtal veiti engin svör við því hvers vegna þetta lán hafi verið veitt:
Veð í dönskum fjárfestingabanka í yfirstandandi fjármálakreppu hlaut að vera ótraust. Enda stóð sá banki þá þegar á brauðfótum eins og margir fjárfestingabankar og síðar var hann leystur upp. Seðlabankinn mátti á endanum þakka fyrir að fá einhver verðmæti út úr þessu veði – en þjóðin tapaði þó um 30 milljörðum þegar upp var staðið,
segir Stefán. Bendir hann á að um kvöldið hafi Geir svo flutt hina frægu „Guð blessi Ísland“-ræðu og því sé óskiljanlegt að þetta lán hafi verið til umræðu fyrr sama dag:
Hvers vegna var þetta lán þá veitt, með þeim hætti sem varð?
Símtalið veitir engin svör við því. Það gerir þennan gjörning reyndar enn óskiljanlegri en hann var fyrir. Þetta var ákvarðanataka í fáti og fumi, eins og það birtist í símtalinu.
Var þetta til að kaupa tíma? Og þá fyrir hverja? Og til hvers?
Það hafi heldur ekki verið rætt hvert þessir peningar áttu að fara og hverju þeir áttu að bjarga:
Það hefur heldur aldrei verið skýrt með fullnægjandi hætti hvar þessir peningar enduðu.
Af hverju er það ekki gert? Þetta var fé almennings.