Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra segir að vandinn í tengslum við kynferðislega áreitni sé miklu meiri en hann hafi gert sér grein fyrir. Um sé að ræða einstaklinga sem fari gegn eðlilegri háttsemi í samskiptum og það eina sem hægt sé að gera sé að fá þá til að láta af þessari háttsemi.
Meira en 300 konur í stjórnmálum stigu fram í gær og sendu frá sér áskorun vegna kynferðisofbeldis og áreitni í stjórnmálum hér á landi. Konurnar koma úr öllum stjórnmálaflokkum. Með áskoruninni voru níu reynslusögur sendar á fjölmiðla þar sem fram kom lýsing á hátterni karlkyns borgarstjóra á 21. öld sem talaði niðrandi um konur og reynsla konu sem sagðist ekki hafa tölu á því hversu oft henni hefur verið hótað nauðgun.
Sjá einnig: „Að taka þátt í prófkjöri var ávísun á að þurfa „þola“ kossa, þukl og faðmlög frá flokksMönnum“
Kristján Þór sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að umfang kynferðislegrar áreitni sé meira en hann hafi gert sér grein fyrir:
Við erum alltaf með einstaklinga, hvort sem það er í stjórnmálaflokkum eða vinnustöðum, sem fara út fyrir siðleg mörk í umræðunni og stundum í háttalagi. Þá er eina gagnið er að þeir sem eru í kringum viðkomandi einstakling beiti sér með einhverjum hætti að hann láti af þessu háttalagi sem að gengur bara gegn siðaðra manna háttum.
Kristján Þór sagðist jafnframt vita alveg hvernig umræðan væri, hann hefði verið til sjós og lokaður inni í skipi ásamt öðrum karlmönnum í langan tíma:
Ég fór fyrst á sjó um 16 ára aldur, lokaðan stálhlunk með 10-15 körlum. Ég veit alveg hvernig umræðan er, hún er ekkert þannig lengur en við erum alltaf með einstaklinga sem að fara út fyrir siðleg mörk.