Jóhanna María Sigmundsdóttir, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 2013 til 2016, segir að hún hafi ekki tölu á því hversu oft hún hafi þurft að forða sér á samkomum og taka hendur af líkamshlutum sem ekki sé ásættanlegt að séu snertir. Jóhanna María, eða Hanna María eins og hún er gjarnan kölluð, var ein þeirra kvenna í stjórnmálum sem steig fram í gær og lýsti kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir á meðan hún starfaði í stjórnmálum.
Hún sagði í Kastljósi í gærkvöldi að hún hefði fengið athugasemdir um að hún ætti að brosa meira, passa sig að vera sæt, mála sig, ekki vera þreytuleg og ekki hylja sig um of ef hún vildi ná lengra í stjórnmálum. Rifjaði hún upp atvik sem komu í kjölfarið á því að hún skrifaði grein um skaðsemi ákveðinna efna í plastvörum. Í greininni minntist hún á skaðleg efni í hjálpartækjum ástarlífsins og sleipiefnum, fékk hún þá athugasemdir frá karlmönnum um að þeir gætu sýnt henni hvernig ætti að nota þessi tæki:
Einn gekk svo langt, maður sem starfar í pólitík í dag, að segja mér að eftir að hann las greinina mína nægði honum að hugsa um mig og það sem ég skrifaði í greininni til þess að ná að fullnægja sér.
Í færslu sem Hanna María skrifar á Fésbók segir hún:
Eitt atvik? Nei. Má ekki neitt? Jú, með samþykki. Ég hefði getað talað um óviðeigandi strokur og hendur á óviðeigandi stöðum. Hversu oft ég hef þurft að forða mér á samkomum, taka hendur af líkamspörtum sem er ekki ásættanlegt að séu snertir. Hversu oft aðrir hafa séð menn snerta mig á óviðeigandi hátt og ekkert gert í því.
Hanna María segir að það sé ætlast til að konur taki á áreitninni sjálfar og ef þær geri það, þá þurfi þær að „róa sig“, „ekki vera svona æstar“, hætta þessu „veseni“ eða vera ekki svona „viðkvæmar“:
Einn maður sagði við mig að ég þyrfti að skilja, að sem þingmaður væri ég eign þjóðarinnar. Það getur vel verið, líkami minn er það hinsvegar ekki. Þó ég faðmi góðan vin þá gefur það ekki ókunnugum leyfi til að káfa á mér. Ég ætla ekki að ritskoða mig til að öðrum líði vel, heldur vona að þið virðið hreinskilni mína. Virðum mörkin.