Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar verður kynnt á morgun, þriðjudag. Hún mun síðan taka við völdum á miðvikudag. Stjórnarmyndunarviðræður eru langt komnar. Þegar ný ríkisstjórn verður mynduð mun Sigurður Ingi Jóhannsson mæta á Bessastaði og láta Bjarna Benediktsson fá lyklana. Svo segir í frétt mbl.is í dag.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar var tekið viðtal við Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, þarsem hann talaði um að hugsanlega myndi hann segja af sér sem þingmaður ef hann sest á ráðherrastól. Hann sagði að það hefði verið rætt mikið á síðustu árum að ráðherrar séu ekki á þingi. Hugmyndin sé að þingmenn séu alltaf á Alþingi og nái að sinna þingstörfum en séu ekki allan daginn að sinna störfum sem hluti af framkvæmdavaldinu. Aðspurður sagði hann að þau í Bjartri framtíð hefðu einbeitt sér mest að því að vinna í stjórnarsáttmálanum en ekki mikið spáð í mál einsog ráðherrastóla og hvernig það verði framkvæmt. Í kvöld mun sex hundruð manna flokksráð Sjálfstæðisflokksins koma saman og ráð Bjartrar framtíðar og Viðreisnar einnig, þótt þau telji ekki sex hundruð manns.
Formenn flokkanna þriggja hitta þingmenn í dag einslega og ræða skipan í ráðherrastóla og bera svo formlegar tillögur undir þingflokkanna á morgun eða þriðjudag, segir í frétt mbl.is í dag. Þar segir einnig að Benedikt Jóhannesson verði fjármála- og efnahagsráðherra í hinni nýju ríkisstjórn og Óttarr Proppé verður heilbrigðisráðherra.
-Börkur Gunnarsson