„Jájá, þetta var kannski ekki alveg nákvæm tímalína hjá mér eins og ég fór yfir þetta,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu RÚV í gærkvöldi. En kvöldið þar á undan hafði hann látið hafa eftir sér að starfshópur sem hann skipaði sem fjármála- og efnahagsráðherra til að gera skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi ekki skilað afurðinni af sér fyrr en eftir að þingstörfum var lokið. En nú hefur komið í ljós að skýrslan var komin í ráðuneytið fyrir þingslit sem voru þann 13. október. Þannig fékk Bjarni sérstaka kynningu á efni skýrslunnar 5. október.
„Þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því,“ sagði Bjarni. Hann segir samt að birting skýrslunnar fyrir kosningar hefði ekki átt að breyta neinu. „En ég skal ekki taka það af neinum, einhverjum kann að líða þannig að hann hefði viljað fá að sjá þessa skýrslu fyrr, og það er bara á mína ábyrgð að ég hafi haldið þannig á málinu að ég hafi verið að hugsa þetta fyrst og fremst fyrir þinglega meðferð og síðan opinbera kynningu,“ segir Bjarni. „En það sem ég átti við, og var í huga mér, var það að þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér, sem er þarna já fyrstu vikuna í október, þá standa yfir samningar um þinglok og það er beðið eftir því, og reyndar krafa stjórnarandstöðunnar að við ættum að vera löngu farin heim, og sú hugsun mín að málið gæti fengið efnislega meðferð í þinginu var í raun og veru óraunhæf á þeim tíma.“
Textinn „september 2016“ gerður illlesanlegur
Hann telur að birting skýrslunnar fyrir kosningar hefði litlu breytt. „En ég skal ekki taka það af neinum, einhverjum kann að líða þannig að hann hefði viljað fá að sjá þessa skýrslu fyrr, og það er bara á mína ábyrgð að ég hafi haldið þannig á málinu að ég hafi verið að hugsa þetta fyrst og fremst fyrir þinglega meðferð og síðan opinbera kynningu,“ segir Bjarni.
Blaðamaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson fjallar um málið á Stundinni og hann skrifar: „Á bls. 15 í skýrslunni kemur skýrt fram að henni var skilað í september. Á forsíðunni má meira að segja finna orðin „september 2016“ – en af einhverjum ástæðum eru þau rituð með hvítu ósýnilegu letri sem sést aðeins ef tekið er utan um textann. Alþingi var hins vegar að störfum allt til 13. október. Þá hafði starfshópurinn löngu skilað ráðuneytinu skýrslunni.“
Fréttamaðurinn Ægir Þór Eysteinsson fjallar um málið á Ruv.is. Fréttastofa RÚV hafði tækifæri á því að spyrja Bjarna Benediktsson út í þetta mál að textinn „september 2016“ hafi verið hvíttaður og gerður illlesanlegur. Ægir Þór skrifar: „Fréttastofa spurði Bjarna hvort hann hafi látið gera þetta. „Nei, það gerði ég svo sannarlega ekki. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna eitthvað slíkt kann að hafa átt sér stað,“ svaraði hann.“
Börkur Gunnarsson