Eftir fund Þingflokks sjálfstæðismanna í gær er orðið ljóst að ný ríkisstjórn er að verða til. Hún ætti að vera orðin klár fyrir miðja næstu viku og tekur þá fyrsta ráðuneyti Bjarna Benediktssonar við stjórn landsmála.
Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð mynda þá ríkisstjórn sem hefur minnsta mögulega meirihluta, eða einn þingmann.
Bjarni sagði við fréttastofu Stöðvar 2, að þingflokkurinn væri í aðalatriðum sáttur við drög að stjórnarsáttmála sem hann hefði kynnt á fundinum. Stefnt er að því að ný ríkisstjórn verði kynnt á þriðjudag eða miðvikudag.
Bloomberg-fréttastofan birtir frétt eftir Ómar R. Valdimarsson blaðamann, þar sem segir að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson fái atvinnuvegaráðuneytið og Guðlaugur Þór Þórðarson verði innanríkisráðherra eða utanríkisráðherra, en skipting ráðuneyta sé enn ófrágengin hjá Sjálfstæðisflokknum.