Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í júní sl. starfshóp sem var falið, annars vegar, að leggja tölulegt mat á umfang eigna og umsvif Íslendinga á aflandssvæðum og, hins vegar, að áætla mögulegt tekjutap hins opinbera sem af slíku leiðir. Starfshópurinn eða nefndin skilaði skýrslu af sér í dag, 6. janúar.
Nefndin játar í yfirlýsingu að afar erfitt sé að leggja fram nákvæmt mat á umfangið eða beinar fjárhæðir í málinu. Nefndin notast við aðferðir sem hafa verið notaðar á öðrum Vesturlöndum. En aðferðin sé ekki örugg á neinn hátt. Nefndin beindi sjónum sínum að eftirtöldum þremur meginþáttum:
1. Ólögmætri milliverðlagningu í vöruviðskiptum (oft nefnt hækkun/lækkun í hafi).
2. Eignastýringu erlendis.
3. Óskráðum fjármagnstilfærslum.Þá segir í skýrslunni að niðurstaða skýrslunnar sé háð þeim upplýsingum sem tiltækar voru. En að í mörgum tilvikum hafi reynst torvelt að komast yfir upplýsingar. „Annmarkar og óvissa sem af þessu leiðir þýðir að matið fyrir þá þrjá þætti, sem skoðaðir voru, liggur á nokkuð breiðu bili svo sem áður segir. Hafa þarf þessa þætti í huga þegar niðurstöður matsins eru túlkaðar.“
En meginniðurstaðan sé að yfir tímabilið 1990-2015 hafi uppsafnað fjármagn á aflandssvæðum vegna ólögmætrar milliverðlagningar í vöruviðskiptum verið á bilinu 140-160 ma.kr. Þá segir í skýrslunni: „Einnig var stuðst við upplýsingar um eignir í stýringu erlendis sem hafa verið notaðar til þess að áætla umfang aflandseigna, en starfshópurinn telur umfang þeirra geta verið á bilinu 110-350 ma.kr. Árétta þarf að ekki er hægt að segja til um það hversu stór hluti umfangsins hafi verið gefinn upp til skatts á íslensku skattframtali. Að lokum var lagt mat á óskráðar fjármagnstilfærslur milli landa og þær taldar geta numið á bilinu 100-300 ma.kr.Mögulegt er að þær fjárhæðir sem um ræðir skarist að einhverju leyti. Að því gefnu að fjárhæðirnar skarist ekki er niðurstaðan sú að alls geti umfangið hafa numið á bilinu 350-810 ma.kr. í lok árs 2015, með miðgildi í 580 ma.kr.“
Í skýrslunni segir að aflandsvistun eigna í eigu Íslendinga hafi átt sér stað fyrir fall fjármálakerfisins og að frá þeim tíma hafi orðið miklar framfarir í reglulegum upplýsingaskiptum milli landa. Meðal annars um bankainnstæður Íslendinga í þeim ríkjum sem samþykkt hafa reglur um upplýsingaskipti.
Síðan er skrifað í skýrsluna:
Verkefni starfshópsins er síðasti áfanginn í þríþættri aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn skattsvikum og skattaskjólum (aflandsfélögum) sem kynnt var í ríkisstjórn í apríl sl.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.
Börkur Gunnarsson