Þingflokkur VG hélt fund síðdegis í gær og virðist enn lifa í von Vinstri grænna og Framsóknarmanna um að komast í ríkisstjórn. Bæði eru meldingar í gangi til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem mikill þrýstingur er settur á Bjarta framtíð um að fara ekki í þetta ríkisstjórnarsamstarf, þetta má lesa um í greiningu Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu í dag. Þar er því haldið fram að efnislega hafi Bjarni fengið skilaboð um hugmyndir Vinstri grænna og Framsóknarmanna á nýársdag og að flokkarnir væru tilbúnir að láta á það reyna hvort flokkarnir þrír gætu náð saman með þessar hugmyndir sem útgangspunkt. Þá skrifar Agnes:
Á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í fyrradag, sem stóð mun lengur en ráð hafði verið fyrir gert, mun það hafa komið fram í máli Bjarna, þegar hann fór yfir stöðuna, að hann teldi sig ekki hafa neitt áþreifanlegt í höndunum frá Framsókn og VG þrátt fyrir þau skilaboð sem honum hefðu borist á nýársdag. Hann væri í stjórnarmyndunarviðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð og hefði engan hug á því að fara í stjórnarmyndunarviðræður við tvo aðila á sama tíma. Á þessu stigi þyrftu stjórnmálin síst á því að halda að sá sem væri með stjórnarmyndunarumboðið léki tveimur skjöldum.
Eygló Harðardóttir ekki vinsæl
Í greiningunni í Morgunblaðinu er það fullyrt að mikill stuðningur sé við samstarf við Framsóknarflokkinn og Vinstri græna. Innan Sjálfstæðisflokksins er litið á Sigurð Inga Jóhannsson og Lilju Alfreðsdóttur sem fólk sem sé traustsins vert en efasemda gætir hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins gagnvart ákveðnum þingmönnum Framsóknarflokksins. Þar er Eygló Harðardóttir nefnd oftast á nafn. Þá er þess getið að Lilja sé einmitt talinn upphafsmaðurinn að því að Framsókn og VG fóru að tala saman. Þess er einnig getið að VG vilji taka Samfylkinguna með í samstarfið en það er víst að það verði mótstaða við þá hugmynd hjá Sjálfstæðisflokknum.
Þá skrifar Agnes í Morgunblaðið:
Þótt ákveðnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu spenntari fyrir stjórnarsamstarfi við Framsókn og VG en við Viðreisn og Bjarta framtíð er fullyrt af heimildarmönnum úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins að formaðurinn hafi óskorað umboð þingflokksins til stjórnarmyndunar og nái hann saman við Viðreisn og Bjarta framtíð um stjórnarsáttmála muni ekki einn einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins mótmæla eða greiða atkvæði gegn slíku samstarfi.
Helstu efasemdir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um stjórnarmyndun með Viðreisn og Bjartri framtíð snúa vitaskuld að hinum nauma meirihluta, sem margir telja að vart sé á vetur setjandi.
Vantraust í þingflokki Sjálfstæðisflokksins í garð Katrínar Jakobsdóttur og raunar fleiri þingmanna VG er sagt mikið. Sömuleiðis benda ákveðnir þingmenn á „galnar tillögur“ VG í desember um skattahækkanir við aðra umræðu fjárlaga og jafnfram var á það bent að VG hefði ekki verið lengi að detta í stjórnarandstöðuhlutverkið þegar kom að afgreiðslu hins gífurlega þýðingarmikla frumvarps um jöfnun lífeyrisréttinda. Þá hefðu þingmenn VG ekki verið að láta það trufla sig að friður á vinnumarkaði yrði í uppnámi í næsta mánuði ef frumvarpið væri ekki afgreitt fyrir áramót.