„Krónan hefur styrkst verulega frá því að hún var lægst. Þeir voru og eru til sem töldu fall krónunnar sanna að hún væri „ónýt“ mynt. En krónan var aðeins mælistika sem mældi rétt og lagaði sig að mælingunni,“ svo segir í Staksteinum Morgunblaðsins í dag.
Þar segir einnig hið augljósa að vextir séu háir og að umræðan um vexti sé þörf, þá segir höfundur Staksteina: „En áttavillt umræða um vexti á ekki skilið hrós.“ Seinna segir sami höfundur: „Þeir sömu sem töldu fall krónu sanna galla hennar segja enn að hún sé ónýt, en nú sé það styrkleikinn sem sanni veikleikann.“
Höfundur Staksteina segir að það megi stuðla að því að mæling og aðlögun krónunnar sé milduð. Það hafi verið að nokkru verið gert. En það séu ekki sömu öflin sem ýta krónunni upp nú og gerðu það fyrir rúmum áratug. Öflin núna séu að mestu góðkynja. Styrking krónunnar muni draga úr hækkunarþrýstingi ef vöxtunum sé ekki haldið of háum of lengi, segir höfundurinn.
Svo kemur pæling sem ýtir undir þá kenningu að Davíð Oddsson skrifi Staksteina og leiðara Morgunblaðsins:
Það vitlausasta í umræðu um vexti, er þegar sagt er að Ísland hljóti að keppa að 0% stýrivöxtum eins og tíðkist í „löndum sem við berum okkur saman við“. Yfirvöldum peningarmála í þeim löndum þykir ömurlegt að hafa vexti við núllið. Það er nauðung vegna stöðnunar efnahagslífsins og ótta við stjórnlitla verðhjöðnun.