„Það eru allir sammála því að löggæslan hefur orðið útundan,“ sagði Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í viðtali við Frosta Logason og Mána Pétursson í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun. Sigríður sagði margar ástæður fyrir því að það þyrfti að efla lögregluna. Ekki aðeins hefði hún orðið útundan við fjárlagagerð heldur hefðu verkefnum hennar fjölgað verulega. Mikil fjölgun ferðamanna hefði aukið álagið á lögreglunni en einnig hvíldi aukinn fjöldi hælisleitenda á henni. Sigríður sagði að það væri að brýnt að skoða allskonar útfærslur, hvort stofnunin ætti að vera sveigjanlegri og hafa fleiri lögreglumenn á svæðum nálægt ferðamannstöðum á ákveðnum tímabilum.
Þá sagði hún eitt mikilvægasta verkefnið vera stofnun millidómsstigs. En það væri búið að afgreiða það frá Alþingi og mun dómstigið verða að veruleika 1. janúar 2018. En verkefni ráðherrans þetta árið er að tryggja að undirbúningurinn gangi snuðrulaust fyrir sig.
Hún var spurð út í aðskilnað ríkis og kirkju og sagðist persónulega telja að það gæti orðið gott fyrir bæði ríki og kirkju. En það væri mjög flókið mál, enda samningurinn við kirkjuna mjög gamall. En slíkur aðskilnaður yrði aldrei framkvæmdur nema í pólitískri sátt.
Máni spurði Sigríði hvort hún væri ekki orðin hluti af forræðisstjórn, því nú væri verið að hækka skattinn á tóbakið og svo væri verið að þvinga öll fyrirtæki til að taka á sig jafnlaunavottun.
Sigríður sagðist ekki vera hrifin af því að ríkið væri að ryðjast svona inní fyrirtæki með jafnlaunavottun. Sagði að það væru hlutir í þessari umræðu um kynbundinn launamun sem væri erfitt að mæla. Persónulega hefði hún aldrei upplifað slíkt en útilokaði ekki að þetta viðgengist einhverstaðar.
Þá var hún spurð út í málefni hælisleitenda sem nú eru á borði hennar. Í svari sínu ítrekaði hún að hún væri að tala um hælisleitendur en ekki innflytjendur. Hún sagði það blasa við öllum hver vandinn í málefnum hælisleitenda sé. Hingað séu að koma mikill fjöldi hælisleitenda frá löndum sem eru flokkuð sem örugg. Hún sagði að þyrfti að ná hraðari afgreiðslu á þeirra málum og senda skýr skilaboð til þeirra landa.