Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum telja eðlilegt að þingmenn í forystu flokksins í Suðurkjördæmi sé tryggð formennska í veigamiklum nefndum Alþingis. Þetta kemur fram í ályktun fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum sem samþykkt var einróma á fundi í gær. Lýsir fulltrúaráðið yfir miklum vonbrigðum með að Páll Magnússon oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafi ekki fengið ráðherraembætti og að þetta sé alvarlegt þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sé með sex ráðherraembætti:
„Með þessari framgöngu er horft framhjá lýðræðislegri niðurstöðu fjölmenns prófkjörs í Suðurkjördæmi til að stilla upp lista og glæsilegum kosningasigri í kjördæminu í alþingiskosningunum 29. október sl. Með þessum vinnubrögðum er vilji kjósenda flokksins í kjördæminu hunsaður,“
segir í ályktun fulltrúaráðsins.
Er einnig gerð alvarleg athugasemd við að þrír ráðherrar af ellefu komi úr landsbyggðarkjördæmum, enginn úr Suðurkjördæmi, en Unnur Brá Konráðsdóttir 8. þingmaður Suðurkjördæmis kemur til með að verða forseti Alþingis. Líkt og Páll sjálfur sagði í útvarpsviðtali í gær eru Sjálfstæðismenn í Eyjum að öðru leyti ánægðir með ríkisstjórnina, telja Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum það sanngjarnt og eðlilegt að forystumenn flokksins í kjördæminu, sem eru Páll og Ásmundur Friðriksson, fái formennsku í veigamiklum nefndum:
Í ljósi þess hversu öflugt starf er unnið undir merkjum Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu er sanngjarnt og eðlilegt að þingmönnum í forystu flokksins í Suðurkjördæmi séu tryggð formennska í veigamiklum nefndum Alþingis.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is