„Það er auðvitað við hæfi að óska nýrri ríkisstjórn góðs gengis við að vinna þjóðinni gagn og ég geri það hér með en ég skal líka viðurkenna að ég hef verulegar áhyggjur af því í hvað stefnir. Það er ekki bara vegna þess að Framsóknarflokkurinn er ekki í ríkisstjórninni. Auðvitað er það svekkjandi en það kom svo sem ekki mjög á óvart, það má segja að teningunum hafi verið kastað hvað það varðar í október.“
Þetta segir maðurinn sem myndaði ríkisstjórn eftir kosningarnar 2013, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fv. forsætisráðherra í samtali við Eyjuna nú þegar ljóst er að Bjarni Benediktsson er að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar og verður sjálfur forsætisráðherra.
Eyjan náði tali af Sigmundi Davíð og spurði hvað ylli honum áhyggjum varðandi hina nýju stjórn?
„Það sem veldur áhyggjum er að þetta er sérlega óheppileg samsetning. Það er auðvitað að finna gott fólk í öllum þessum flokkum en hvað varðar pólitískar áherslur er búið að skapa einstaklega hættulega blöndu.
Viðreisn varð til upp úr Áfram-Icesave samtökunum og JÁ-ESB hópnum, sem að miklu leyti voru reyndar sömu hóparnir. Flokknum er haldið úti af fólki sem hefur verið áhrifamikið í viðskiptum á Íslandi undanfarin ár en er mjög langt frá því að vera á sömu línu og Framsókn varðandi forgangsröðun, t.d. varðandi skuldamál almennings, verðtryggingu og viðureign við erlenda kröfuhafa. Reyndar skilgreindi flokkurinn sig sem and-Framsóknarflokk, sérstaklega með vísan til Framsóknar áranna 2009-16.
Björt framtíð virðist í flestum málum vera á svipuðum slóðum og Viðreisn enda flokkarnir búnir að koma fram sem einn eftir kosningar. Reyndar hefði farið betur á því ef flokkarnir hefðu opinberað trúlofunina fyrir kosningar.“
En nú eru hafta- og skuldamálin vel á veg komin. Snúa þá áhyggjur þínar aðallega að Evrópusambandsmálum?
Nei, ekki beint. Reyndar óttast ég að ríkisstjórnin bregðist ekki rétt við þeim tækifærum og ógnunum sem eru til staðar vegna Brexit og breytinga á ESB en það er önnur saga.
Viðreisn varð upphaflega til úr Sjálfstæðisflokknum vegna þess að ekki fékkst kosning um ESB. En nú virðast menn vera búnir að gefa það eftir ef það er rétt að þingið eigi að taka ákvörðun um hvort sækja eigi um. Ég hef enga trú á því að það sé meirihluti fyrir því í þinginu á meðan VG er í stjórnarandstöðu.
Það sem ég óttast við þetta stjórnarmynstur og það sem mér mér sýnist á því sem ég hef séð um samkomulag flokkanna er að Viðreisn/Björt framtíð muni ekki hafa góð áhrif á Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn er langt til hægri við Sjálfstæðisflokkinn á mörgum sviðum, og það á öllum röngu sviðunum. Áhrifin geta orðið ískyggileg. Við stjórnvölinn verður fólk sem heldur að frjálslyndi snúist aðallega um að tvær til þrjár verslanakeðjur fái að selja sem mest af erlendu kjöti og brennivíni.
Það var margt gott við hefðbundna gamla Sjálfstæðisflokkinn, flokkinn sem um tíma studdist við besta kjörorð sem nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur hefur tileinkað sér: „Gjör rétt, þol ei órétt“. Ég er ekki alveg viss um að það eigi við Sjálfstæðisflokkinn núna og allra síst í þessum félagsskap.
Ég hef unnið mjög vel með mörgum fyrrverandi og núverandi stuðningsmönnum flokksins, fólkinu sem ég myndi kalla prinsipp-fólk frá miðju til hægri. Vonandi tekst slíku fólki að hafa góð áhrif á ríkisstjórnina en ég óttast að sú verði ekki raunin.“
Hvernig munu þá stjórnmálin þróast á næstu misserum að þínu mati?
Að undanförnu hafa grundvallarbreytingar á stjórnmálum á Íslandi og annars staðar verið mér mjög hugleiknar eins og sést hefur í greinum, ræðum og viðtölum. Að mínu mati þurfa stjórnmálin á því að halda umfram allt annað að rökhyggja taki við af ímyndarleikjum og áhrif prinsipp-fólks aukist á kostnað alls hins sem einkennir pólitíkina, hvort sem þeir koma frá hægri, vinstri eða miðju.
Ég er ekki viss um að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið en ég óttast að á skömmum tíma sé hægt að vinna miklar skemmdir á ýmsum grunnstoðum samfélagsins og valda tjóni sem erfitt verður að bæta, sérstaklega fyrir landið utan höfuðborgarsvæðisins.“
Ertu að segja að ríkisstjórnin verði andsnúin landsbyggðinni?
„Ég hef áður lýst því að mesta eftirsjá mín við að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skyldi ekki hafa klárað kjörtímabil sitt hafi verið sú að við skyldum ekki ná að standa við fyrirheit gagnvart þeim sem reiða sig á lífeyris- og örorkugreiðslur, að við skyldum ekki setja af stað uppstokkun fjármálakerfisins, m.a. verðtryggingarfyrirkomulagsins og að sú stórsókn sem við höfðum boðað í byggðamálum skyldi ekki verða að veruleika.
Nú hef ég hreinlega áhyggjur af því að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar og byggðir landsins séu í verulegri hættu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa talað um þau mál og mér sýnist að þar eigi að láta til skarar skríða.
Á sama tíma bíður uppstokkun fjármálakerfisins og sala gígantískra verðmæta sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks náði að færa til ríkisins frá kröfuhöfum. Ég gæti ekki hugsað mér verri ríkisstjórn til að halda utan um þau mál. Þetta verða áfram áhugaverðir tímar í íslenskum stjórnmálum,“ segir Sigmundur Davíð ennfremur.