Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi segir ríkisstjórnarsamstarf með Viðreisn og Bjartri framtíð ekki hafa verið sinn fyrsta kost og tekur hann undir sjónarmið um að ríkisstjórnin hafi of mikinn svip höfuðborgarsvæðisins.
Njáll segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hann telji að flugvöllurinn eigi áfram að verra í Vatnsmýrinni og að íslensk stjórnsýsla hafi brugðist í málinu:
Meirihluti þjóðarinnar vill að flugvöllur sé áfram í Vatnsmýri. Það verður að segjast að mér hefur fundist íslensk stjórnsýsla hafa brugðist almanna- og öryggishagsmunum í þessu máli, svo sem með lokun neyðarbrautarinnar sem svo er kölluð. Ég held að það sé kominn tími til að skoða hvernig tekið er á svona málum meðal nágrannaþjóða okkar, eins og t.d. í Svíþjóð þar sem flugið er líkt og hér mikilvægur samgöngumáti,
sagði Njáll við Morgunblaðið. Telur hann að ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar þurfi að sýna það í verki að þeir starfi fyrir landið allt, ekki bara höfuðborgina.
Birgitta og Logi: Ekki tímabært að ræða skiptingu fastanefnda
Um helgina gerðu Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum alvarlegar athugasemd við að þrír ráðherrar af ellefu komi úr landsbyggðarkjördæmum, þar af enginn úr Suðurkjördæmi. Segir í ályktun fulltrúaráðs að eðlilegast sé að forystumönnum flokksins í Suðurkjördæmi sé tryggð formennska í veigamiklum nefndum Alþingis. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Birgittu Jónsdóttur þingmann Pírata og Loga Má Einarsson formann Samfylkingarinnar, telja þau ekki tímabært að ræða formannaskiptingu í fastanefndum Alþingis. Er þar fullyrt að stjórnarflokkarnir hyggist vera með formennsku í sex nefndum af átta.
Ari Brynjólfsson –ari@pressan.is