Stjórnmálaskýrendur eru ekki tilbúnir að slá það út af borðinu að Trump og Pútín muni funda í Reykjavík þótt nokkrir ráðgjafar Trumps hafi sagt fréttir um það vera vitleysu. Eyjan.is greindi frá málinu á bæði laugardag og sunnudag. En það hófst með því að Sunday Times birti frétt á forsíðu sinni um að leiðtogafundur yrði haldinn í Reykjavík. Sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason er með vangaveltur um málið á sinni síðu og telur ólíklegt að fundur verði haldin á milli þeirra hér og vitnar meðal annars í Bjarna Sigtryggsson fyrrverandi sendifulltrúa sem segir: „Hugmyndin um nýjan leiðtogafund í Reykjavík gæti aldrei gengið upp þar sem Rússar tengja 1986-fundinn við „uppgjöf og svik“ af hálfu Gorbasjovs“.
En kannski er stærsta fréttin í þessu að Rússar séu orðnir svona mikið á dagskrá hjá Bandaríkjunum á nýjan leik. Menn á Vesturlöndum óttast fullyrðingar Trump um að NATO sé orðið úrelt einsog Viðskiptablaðið fjallar um og að Rússar séu aftur farnir að leika stórt hlutverk á alþjóðasviðinu en Leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir málið að umtalsefni:
Ekki er víst að Pútín væri spenntur fyrir að eiga fyrsta toppfundinn með Trump í Reykjavík og enn síður í Höfða, hinni þekktu og táknrænu mynd fundarins. Rætt hafði verið um að fundarhaldið yrði á Hótel Sögu, sem hefði óneitanlega verið þægilegra. Höfði er lítið hús. En fundur þar var grípandi. Fundur á einu hótelinu enn er allt annað mál. Höfði vekur enn, þrjátíu árum síðar, minningar víða. Nákvæm eftirmynd hefur verið reist af húsinu í Japan, svo dæmi sé nefnt. Það var ekki í mörg hús að venda í Reykjavík 1986, en Höfði hafði verið uppgerður á ný (sem varð harðlega gagnrýnt á þeim tíma!).
Nú koma allmörg hús til greina fyrir slíkan fund, yrði hann að veruleika. Harpa við höfnina, Þjóðmenningarhúsið og myndrænasta byggingin, Perlan á Öskjuhlíð. (Nixon og Pompidou funduðu á Kjarvalsstöðum.) Ekkifréttin um leiðtogafund Trumps og Pútíns varð tilefni þessara vangaveltna. En það er einnig umhugsunarefni að Vladimír Pútín skuli hafa þá stöðu, þrátt fyrir efnahagslegt andstreymi Rússa og mikla alþjóðlega herferð gegn honum núna, að talið er eðlilegt að fyrsti toppfundur eftir valdaskipti vestra sé með honum. Ekki er ofsagt að Bandaríkjamenn séu í augnablikinu nánast með Pútín á heilanum. Telja hann hafa hrifsað af þeim alþjóðlegt frumkvæði og ráða yfir tölvutækni sem geti ráðið úrslitum kosninga þar sem honum hentar og tækniundrabarn veraldarinnar, Bandaríkin, kunni ekkert fyrir sér til að verjast slíkum óknyttum.