Ögmundur Jónasson og Brynjar Níelsson ræddu vopnaburð lögreglu í Bítinu á Bylgjunni í morgun við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason og eru þeir félagar eru á öndverðu meiði um þetta líkt og svo margt annað. Ögmundur var formaður BSRB í á þriðja áratug og segist því vel þekkja til starfs lögreglumanna enda mikið unnið með forsvarsmönnum þeirra í gegnum árin. Það hafi verið upplifun hans að langflestir lögreglumenn, einkum þeir sem eldri voru hafi verið alfarið á móti því að lögreglumenn bæru vopn, því „vopnaburður, hann kallar á víxlverkun“ eins og Ögmundur orðar það.
Með því að vígbúa lögreglu segir Ögmundur að yfirbragð þjóðfélagsins breytist og eðli löggæslunnar sé annað þegar vopn eiga í hlut. Í stað þess að láta lögreglumenn fá vopn leggur fyrrum dómsmálaráðherra til að lögreglan verði efld með ýmsum hætti, til að mynda með því að fjölga lögreglumönnum.
Það gerðist því miður í kjölfar Hrunsins, meðal annars undir minni verkstjórn að skorið var ótæpilega niður við lögregluna,
segir Ögmundur og bætir við að ekki hafi verið komist hjá þessum niðurskurði en hann hafi einungis átt að vera tímabundinn vegna efnahagsþrenginga. Aðspurður hvort hann sjái eftir þessum niðurskurði viðurkennir Ögmundur að of langt hafi verið gengið á sínum tíma. Það sé brýnna að hlúa betur að lögreglunni en að vopna hana.
Illa mönnuð, undirmönnuð lögregla, vopnuð, það er ekkert sérstaklega farsæll kokteill,
segir Ögmundur.
Róm og Reykjavík
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks segir það rangt að verið sé að vopnavæða lögregluna. Nú séu sérstakar aðstæður sem metnar sú þannig að vopnaburður er nauðsynlegur af lögreglu. Það sé ekki hans að meta hvort það mat sé á rökum reist eða ekki. Þetta sé eitthvað sem lögreglu sé í sjálfsvald sett að ákveða og hann furðar sig á því að „allt fari á annan endann“ út af því.
Aðspurður um það hvort að það sé ekki undarlegt að vopnaðir menn stilli sér upp í fjölskylduhlaupi líkt og Litahlaupinu segir Brynjar það í samræmi við þá þróun sem sé í gangi í löndunum í kringum okkur og nefnir það að þegar hann heimsótti Róm á Ítalíu fyrr á þessu ári voru vopnaðir menn á torgi einu sem hann fór um.
„Róm og Reykjavík er ekki það sama,“ segir Heimir Karlsson annar stjórnanda Bítisins.
Ef að fjöldi kemur saman er Róm og Reykjavík það sama,
svarar Brynjar.
Þurfum við að vera eins og hinir?
En er það ósanngjarnt að gagnrýna lögreglu fyrir þessar aðgerðir ef að hún býr yfir upplýsingum sem réttlæta það að hún vopnist? Það er mat Ögmundar að slíkar upplýsingar verði þá að vera gerðar opinberar. Þegar sú ákvörðun er tekin að lögreglan verði með byssur á fjölskylduskemmtun eins og 17. júní verða að vera fyrir því haldbær rök en hann telur að líklegra sé að skýringin sé sú sem Brynjar nefnir, að lögreglan hér sé að elta þróunina annars staðar í Evrópu.
Við þurfum að vera eins og hinir, líka vopnaðir,
segir Ögmundur og bætir við:
Það er hætta á ferðum í öllu mannlegu samfélagi, alltaf.
Það er verið að breyta Íslandi
Öryggi eykst ekki með vopnaðir gæslu segir Ögmundur en Heimir nefni dæmi um skotárás sem átti sér stað í Bandaríkjunum í gær þar sem vopnaðir lögreglumenn felldu mann sem skaut þingmann í bandarísku fulltrúadeildinni. Gæti það sama ekki gerst á Íslandi? Því hafnar Ögmundur og segir þetta „hræðsluaðstæður“ og veltir því fyrir sér hvort að Bandaríkin séu virkilega það land sem við viljum horfa til í þessum efnum þar sem fjöldi fólks sé skotinn á degi hverjum.
Það er verið að breyta Íslandi og við eigum ekki að láta það gerast,
segir fyrrum þingmaður Vinstri grænna um það að vopnum búin lögregla sjáist á fjölskylduhátíðum. Það verði að horfa til almennrar skynsemi, ekki bara mats lögreglu.
Viljum við að einn maður geti stráfellt mörg hundruð manns því enginn er á varðbergi,
spyr Brynjar á móti og að enginn svari þeirri spurningu játandi. Hann skilji sjónarmið Ögmundar en reglurnar séu þannig að það sé mat lögreglu sem ráði ferðinni.