Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir enga tilviljun að hælisumsóknum hafi fjölgað um 220% á árunum 2015 til 2016, en langflestir hælisleitendanna koma frá Makedóníu og Albaníu. Björn segir í vefdagbók sinni að þróunina megi rekja til máls tveggja fjölskyldna frá Albaníu sem Alþingi veitti ríkisborgararétt fyrir jólin 2015, en í báðum fjölskyldunum voru langveik börn.
Björn segir tilgang þeirra sem komi til Íslands frá Makedóníu og Albaníu vera þríþættan. Tilgangurinn sé að dveljast á Íslandi í að minnsta kosti þrjá mánuði, stunda svarta vinnu eða að njóta íslenskrar heilbrigðisþjónustu:
Tregða er til að ræða þessi mál á opinberum vettvangi eins og ber að gera. Ættu Íslendingar í hlut og reyndu þannig skipulega að hafa fé út úr íslenska ríkinu á ólögmætan hátt eða stunda svarta vinnu yrði þess strax krafist að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að stöðva svindlið. Í tilviki Makedóníumannanna og Albanana er staðið þannig að málum að fjárveitingar eru auknar með því að fara dýpra í vasa skattgreiðenda. Meira að segja er reynt að koma rasistastimpli á þá sem benda á ósómann.
Segir Björn að hælisleitendum fjölgi gjarnan hér á landi þegar vélar Wizz-Air frá Búdapest lendi í Keflavík á miðvikudögum og sunnudögum, það sé spurning hvers vegna það sé ekki samið við ungversk stjórnvöld um að benda þeim sem komi hingað í leit að hæli að það sé til einskis.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is