Stjórnarsáttmáli þriggja flokka ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verður undirritaður í Gerðarsafni í Kópavogi kl. 14.30 í dag. Þar munu formenn flokkanna þriggja kynna efni stjórnarsáttmálans. Það mun að öllum líkindum liggja svo fyrir í kvöld hvaða ráðuneyti flokkarnir fá en gera má ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn fái fimm ráðuneyti, Viðreisn þrjú og Björt framtíð tvö. Sjálfstæðisflokkurinn fær einnig forseta Alþingis og formennsku í fimm nefndum af átta, Björt framtíð og Viðreisn munu deila formennsku í einni nefnd og stjórnarandstaðan fær formennsku í tveimur þingnefndum.
Líkt og Egill Helgason sagði hér á Eyjunni þá verður Benedikt Jóhannesson líklegast fjármálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir félagsmálaráðherra, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. Óljósara eru hverjir verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í innanríkisráðuneytinu, sem gæti verið skipt í tvennt, utanríkisráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, viðskiptaráðuneytinu en gera má ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra.
Fyrir utan þau atriði sem nefnd voru í morgun þá verður stefnt að því í stjórnarsáttmálanum að bæta heilbrigðiskerfið og lækka kostnaðarþáttöku sjúklinga. Hraðað verður á uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut, einnig á að auka þjónustu við aldraða og lífeyrisaldur hækkaður.
Auk þess verður stjórnarskráin endurskoðuð með fulltrúum allra flokka með hliðsjón af þeirri vinnu sem þegar hefur verði unnin.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is