Stjórnarsáttmálinn var samþykktur án vandræða hjá Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn í gær en hjá Bjartri framtíð greidd 51 maður atkvæði sitt með samningnum en 18 manns greiddu atkvæði gegn honum. Á fundi Bjartrar framtíðar urðu heitar umræður og stóð fundurinn frá klukkan átta í gærkvöldi og fram yfir ellefu einsog Eyjan.is greindi frá.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir frá því í fyrirsögn að skoða eigi útleigu aflaheimilda. Sigurjón Magnús Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, var í viðtali á útvarpsþættinum Harmageddon í morgun og hló mikið að þessari setningu „Skoða útleigu aflaheimilda,“ og mátti skilja á honum að honum þætti Viðreisn vera búin að gefa mikið eftir í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Í Morgunblaðinu segir: „Í stað ótímabundins afnotaréttar verður athugað hvort hægt verður að taka upp leigu á aflaheimildum til 33 ára. Er það hugsað til þess að fá auknar tekjur af veiðigjöldum. Einnig að miðað verði meira við afkomu fyrirtækjanna á hverjum tíma. Fulltrúar sem voru á fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokksins og rætt var við í gærkvöldi fullyrtu þó að ekki yrði hróflað við sjálfu aflamarkskerfinu.“
Menn bíða spenntir eftir því að sjá stjórnarsáttmálann en Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur til dæmis gefið í skyn að þar sé opnað á breytingar í landbúnaði.