Björn Bjarnason fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir Bjarna Benediktsson formann flokksins hafa unnið pólitískt þrekvirki á þeim átta árum sem hann hefur setið á formannsstól:
„Nú eru rétt átta ár liðin frá því að ráðamenn innan Samfylkingarinnar brugguðu launráð gegn Sjálfstæðismönnum, samstarfsmönnum sínum í ríkisstjórn. Meginstef launráðsmanna var að hrekja Sjálfstæðismenn úr ríkisstjórn, reka þá út í horn vegna þess að hér varð hrun og leiða Ísland inn í Evrópusambandið samhliða því sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði eilíft í skammarkróknum,“
segir Björn á Fésbók. Nú sé staðan í íslenskum stjórnmálum allt önnur en hún var í janúar 2009:
Samfylkingin er horfin og Íslendingar fjær því að ganga inn í ESB en nokkru sinni. Bjarni Benediktsson hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í þessi átta ár. Hann hefur unnið pólitískt þrekvirki.
Í athugasemd vísar Björn til birtingar á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum sem Bjarni hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir, segir Björn það vera dæmi um dægurdeilu sem sé minna virði en stóra myndin:
Árásirnar sem Bjarni hefur staðið af sér eru fleiri en nokkur man.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is