„Ég var svo önnum kafinn að ég hef ekki náð að velta mér upp úr gagnrýninni. Ég tek hana ekki nærri mér og segi það af virðingu að mér finnst að sumu leyti ekki skrítið að fólk upplifi að ég sé kominn á skrítinn stað,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, en hann hefur verið gagnrýndur nokkuð af vinstri væng stjórnmálanna fyrir að vera að mynda ríkisstjórn, sem kennd er við hægrið í stjórnmálunum, með Engeyjarfrændunum Bjarna Benediktssyni og Benedikt Jóhannessyni.
Kristjana Guðbrandsdóttir ræðir við Óttarr í helgarblaði Fréttablaðsins og þar tjáir hann sig um ríkisstjórnina sem boðað er að taki við stjórnartaumunum á þriðjudag og þar með verði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Kveðst hann telja að fólk hafi ákveðna ímynd af honum og Bjartri framtíð og það skýri svolítið umræðuna nú.
„Í því ljósi þá finnst mér ekkert sérstaklega skrítið að margir furði sig á því að við séum í samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. En lykilhugsun okkar í Bjartri framtíð er að við viljum koma að gagni og reyna að taka ábyrgð. Þess vegna erum við komin á þennan stað sem mörgum finnst skrítinn. Ég sjálfur datt óvart inn í stjórnmálin og þurfti að uppgötva eftir á til hvers ég væri í henni. Þetta er áskorun. Ég vil gera gagn og stuðla að samvinnu og betri stjórnmálum,“ segir hann.
Nýja ríkisstjórnin mun aðeins styðjast við eins manns meirihluta á Alþingi. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst áhyggjum af því. Ekki síst þar sem Viðreisn og sérsstaklega Björt framtíð hafi fámenna þingflokka og þurfi jafnframt að manna ráðherrastóla.
Óttar viðurkennir að þetta geti orðið vandamál.
„Það var vitað fyrir að það yrði strembið fyrir svona lítinn þingflokk að manna allar nefndir þingsins. Það verður enn erfiðara ef við sitjum í ríkisstjórn. Þetta vissum við fyrir og er nokkuð sem við þurfum að vinna úr. En svona verkefni eiga kannski heldur ekki að vera auðveld.“