Ragnheiður Elín Árnadóttir segir í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld klukkan 20:00 að stofnun ferðamálaráðuneytis muni ekki leysa stærstu verkefni ferðaþjónustunnar. Hins vegar sé nýstofnuð Stjórnstöð ferðamála vettvangurinn til að vinna málum farveg í stjórnsýslunni sem komi við fjögur ráðuneyti. Hún segir að þar hafi tekist að móta stefnu fyrir næstu fimm ár í samráði við alla helstu sem koma að atvinnugreininni og fullyrðir að á alla hafi verið hlustað.
Í þættinum kemur fram að Ragnheiður Elín, starfandi ráðherra, telji að stjórnvöld hafi skapað fókus á greinina og gagnrýni formanns Samtaka ferðaþjónustunnar um að það skorti allan fókus hjá yfirvöldum alranga athugasemd. Ragnheiður Elín sendir gagnrýnina til föðurhúsanna: „Það er hjá samtökunum sem vantar allan fókus, ekki hjá stjórnvöldum“.
Um gjaldtökuna segir hún að gistináttagjaldið muni hækka úr 100 krónum á nótt í 300 krónur í haust en hins vegar hafi umræðan um ferðamál verið of mikið um gjaldtöku sem hún telur að sé ekki stýritæki fyrir aðgang að ferðamannastöðum „Við þurfum ekki gjaldtöku til að stýra ágangi, það má gera með ýmsum öðrum leiðum“, og tekur undir að ýmis bókunarkerfi geti verið stýrtæki.
Af Hringbraut.is:
Ragnheiður Elín, stígur senn til hliðar í stjórnmálunum. Hún hefur sinnt embættinu frá árinu 2013 og verið á þingi í tæplega tíu ár. Ragnheiður mætir í kvöld í Ferðalagið sem ráðherra ferðamála.
Hún hefur tekið þátt í stjórnmálum í tæpa tvo áratugi. Aðstoðarmaður ráðherra í níu ár í þremur ráðuneytum, til dæmis með Geir Haarde. Þingmaður í tæp tíu ár bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, verið þingflokksformaður og ráðherra. Hún er fyrsta konan í 87 ára sögu flokksins sem hefur leitt framboðslista í gegnum tvennar kosningar og engin kona hefur leitt kjördæmi lengur en hún. Engin kona hefur leitt kjördæmi lengur en hún. Ragnheiður Elín er fyrsta konan úr landsbyggðarkjördæmi sem verður ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fyrsti ráðherra flokksins af Suðurnesjum.
Þrátt fyrir þetta var henni hafnað í prófkjörinu í haust, af flokksmönnum í kjördæminu og lenti eins og þekkt er í fjórða sætinu.
Hún segist ekki vilja túlka úrslitin neitt sérstaklega og hafi hætt að vera í fýlu þann 11.september, “sama dag og ég birti facebook statusinn um að ég væri hætt”, segir hún í viðtalinu.