Sex af tíu hæstaréttardómurum sinna launuðu starfi annarstaðar en í dómnum, algengast er að um sé að ræða kennarastarf eða starf í öðrum dómum. Um þetta má lesa í Hagsmunaskráningu hæstaréttardómara. Til dæmis er Markús Sigurbjörnsson, sem hefur verið forseti hæstaréttar frá 1. janúar 2012, einnig með launað starf sem prófdómari við lagadeild Háskóla Íslands og með launað starf sem prófdómari við prófraun til öflunar réttinda sem héraðsdómslögmaður.
Hörð gagnrýni á hæstarétt oft komið fram
Þá á meirihluti dómaranna eignir sem eru til annars en til eigin nota og þrír þeirra eiga eignarhlut í hlutafélögum. En þess ber að geta að Markús Sigurbjörnsson á ekki lengur neinn eignarhlut í hlutafélagi en hann átti um tíma tugi milljóna hluti í Glitni. En hann hefur fengið mesta gagnrýni á sig undanfarnar vikur og fjallaði Eyjan.is nýlega um grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, en hann bar Markús þungum sökum. Árið 2014 hafði Jón Steinar þegar komið með ábendingar um að Markús ráði því sem hann vill ráða í hæstarétti, í útgefinni bók sem nefnist Í krafti sannfæringar – saga lögmanns og dómara.
Aðild hæstaréttardómara að félögum virðist aðallega vera bundin við bókmennta- og sagnfræðifélög og síðan eru nokkrir tengdir fótboltafélögum. Knattspyrnufélögin Fram, Valur og Breiðablik eru nefnd til sögunnar.