fbpx
Föstudagur 16.maí 2025
Eyjan

Sjálfstæðisflokkurinn sem heit kartafla – og minningin um hinar sögulegu sættir

Egill Helgason
Föstudaginn 21. október 2016 09:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er til marks um óróann í stjórnmálunum að flokkar sverja af sér vinstri hægri að ætla að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þetta er eiginlega að verða aðalmálið í kosningunum. Viðreisn slær reyndar dálítið úr og í hvað þetta varðar, hún segist allavega ekki ætla að ganga til liðs við núverandi ríkisstjórn, en formenn vinstri flokkanna, Katrín og Oddný hafa verið nokkuð afdráttarlausar. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé heit kartafla – svo maður noti þennan enskuskotna frasa. Helst enginn vill afdráttarlaust vera með honum nema Framsóknarflokkurinn. En nú er óhugsandi að ríkisstjórn flokkanna lifi kosningarnar af.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, heldur því fram að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt á fundi í Grímsey að hugsanlegt sé að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Steingrímur bregst hinn versti við og segir að þetta sé algjör fjarstæða.

Það er náttúrlega styttra á milli Benedikts og Sjálfstæðisflokksins en Steingríms og Sjálfstæðisflokksins. Benedikt og ættmenni hans hafa alið mestallan sinn aldur í Sjálfstæðisflokknum. En það gerist stundum fyrir kosningar að upp koma hugmyndir um „sögulegar sættir“, eins og það var kallað í forðum, samstarf Sjálfstæðisflokksins og stjórnmálaflokksins sem er lengst til vinstri.

Í eina tíð var þetta talið mjög ólíklegt vegna utanríkismála, víglínunnar í kalda stríðinu. En yfir nýsköpunarstjórninni sem starfaði í stríðslok hefur lengi verið ákveðinn ljómi innan Sjálfstæðisflokksins. Þar náðu sósíalistar og Sjálfstæðisflokkurinn saman þó ekki væri nema stutta hríð. Það gengu sögur af því hversu gott samstarf hefði verið milli Ólafs Thors og Einars Olgeirssonar. Í verkalýðshreyfingunni var svo oft ágætt samstarf milli fulltrúa þessara afla – stundum til þess að halda niðri sósíaldemókrötum.

Sjálfstæðisflokkurinn og sósíalistar hafa ekki unnið saman síðan þá, nema í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen en þar var á ferðinni ekki ýkja stór klofningur úr Sjálfstæðisflokknum, Alþýðubandalagið og Framsókn, nóg til að ná meirihluta á þingi.

Forystumenn VG segja nei, en innan Sjálfstæðisflokksins eygja menn ákveðna von í þessu, þó ekki sé nema vegna þess að líkurnar á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í ríkisstjórn fara hraðminnkandi. VG er hægfara í kvótamálum, vill enga byltingu í landbúnaðarmálum, setur ekki stjórnarskrána á oddinn, hefur lítinn áhuga á ESB – og er með formann sem meira að segja Sjálfstæðismenn bera nokkra virðingu fyrir. Katrín og Bjarni geta vel unnið saman, segja þeir.

Kannski er það tóm óskhyggja hjá Sjálfstæðismönnum. Í nýrri skoðanakönnun sem birtist í Morgunblaðinu er meirihluti stjórnarandstöðuflokkanna á þingi í spilunu, Píratar, Vinstri græn, Björt framtíð og Samfylkingin gætu myndað ríkisstjórn með þokkalegum meirihluta.

Í því samhengi er þess þó að geta að Píratar setja fram skilyrði sem hinir flokkarnir geta trauðla sætt sig við, en virðast vera ófrávíkjanleg hjá Pírötunum, eins og um stutt kjörtímabil sem snýst fyrst og fremst um stjórnarskrá og að ráðherrar sitji ekki á þingi.

Þetta gæti nú staðið í einhverjum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fyrir 3 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Heimóttarskapur er erfiður andstæðingur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Heimóttarskapur er erfiður andstæðingur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Furðar sig á pólitísku leikriti – „Þegar ráðherra var á leiðinni ákvað stjórnarandstaðan að taka sig af mælendaskrá og láta sig hverfa úr húsi“

Furðar sig á pólitísku leikriti – „Þegar ráðherra var á leiðinni ákvað stjórnarandstaðan að taka sig af mælendaskrá og láta sig hverfa úr húsi“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingmaður Sjálfstæðisflokks skammar ráðherra fyrir málskostnað sem hennar eigin ríkisstjórn stofnaði til

Þingmaður Sjálfstæðisflokks skammar ráðherra fyrir málskostnað sem hennar eigin ríkisstjórn stofnaði til
Eyjan
Fyrir 1 viku

Formaður Sjálfstæðisflokksins fór í vikulangt frí daginn áður en eitt stærsta mál þessa þings var tekið til fyrstu umræðu

Formaður Sjálfstæðisflokksins fór í vikulangt frí daginn áður en eitt stærsta mál þessa þings var tekið til fyrstu umræðu