fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Eyjan

Njálsgata-Gunnarsbraut – Garðar úrsmiður, Pétur þulur og hús við Lækjartorg

Egill Helgason
Mánudaginn 29. ágúst 2016 20:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er dásamleg ljósmynd frá Reykjavík eins og ég man hana á fyrsta áratug lífs míns. Hún er líklega tekin um miðjan sjöunda áratuginn, birtist á vefnum Gamlar ljósmyndir. Maður rekur fyrst augun í litina sem eru oft svo skemmtilega mjúkir í myndum frá þessum tíma.

Myndin sýnir norðurhlið Lækjartorgs, Hafnarstræti og út á Kalkofnsveg. Ég man eftir að hafa verið að selja Vísi á þessu svæði þegar ég var strákur. Það gekk ekki sérlega vel, ég náði aldrei að vera nógu ágengur. En það var einn maður sem sá aumur á mér oftar en einu sinni, þetta var Garðar Ólafsson úrsmiður sem var með verslun í litlu húsunum sem eru fremst á myndinni. Síðan hugsa ég alltaf með miklum hlýhug til Garðars.

Í fjarska má sjá Sænska frystihúsið, stórbyggingu sem var rifin til að rýma fyrir húsi Seðlabankans. Litla húsið við hliðina á turninum sem hefur lengi verið á flakki um þetta svæði var Hreyfilsstöðin en þar rak Pétur Pétursson þulur sjoppu um tíma. Pétur bjó í Ásvallagötunni og var óþreytandi að ræða málin við vegfarendur, líka okkur krakkana. Það varð aldrei neitt af sundlauginni sem hann vildi setja upp í húsasundinu á bak við Ásvallagötuna, en hann bauð mér eitt sinn í söngferð með frönskum drengjakór sem hann hafði flutt til Íslands. Ég man samt ekkert hvert við fórum, í eitthvað félagsheimili úti á landi, þekkingu minni á landafræði var ábótavant í þá daga. Pétur var kvæntur Birnu, hún vann eitt sinn á Veðurstofunni og var sagt að þá hefði alltaf verið gott veður.

Það er furðu mikill borgarbragur á þessari mynd, þótt húsin séu ekki ýkja háreist öll. Þarna má líka sjá gamla Siemsens-húsið sem var endurbyggt í Grófinni og hús þar sem Bílar & landbúnaðarvélar höfðu starfsemi. Á þessum árum var Lækjartorg enn miðstöð samgangna í Reykjavík. Við sjáum að á myndinni eru tveir strætisvagnar. Þarna ók Njálsgata-Gunnarsbraut, ein af leiðunum sem var til áður en kerfinu var breytt í kringum 1970. Ég var í Ísaksskóla og tók stundum strætó þangað, hef varla verið nema sjö ára.

Þetta svæði er hálfgerð eyðimörk nú, enda búið að rífa öll hús nema þau sem eru aftast á myndinni. Í staðinn á að reisa hið svonefnda Hafnartorg. Ég er ekki viss um að verði skemmtilegri bragur yfir því en sá sem má sjá myndinni.

 

14114971_1068026026621739_1768748185282238007_o

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Könnun – Ísland og Evrópusambandið

Könnun – Ísland og Evrópusambandið