

Páll Baldvin Baldvinsson sagði í Kiljunni um daginn, í tilefni af útgáfu bókarinnar Stríðsárin, að í Íslendingum hefði síðan í stríðinu búið draumurinn um amerískt allsnægtasamfélag.
Í dag má sjá í Fréttablaðinu á næstum hverri einustu síðu auglýsingu um Black Friday.
Ég er reyndar svo fávís að ég hafði ekki heyrt um fyrirbærið fyrr en í morgun – og fer þó oft til Bandaríkjanna.
Málvöndunarmenn hafa tjáð sig og spurt hvort þetta megi ekki heita Föstudagur til fjár, Föstudagsfár eða einfaldlega Svarti föstudagurinn.
Kannski er hægt að koma því í kring, en þetta er enn Black Friday, rétt eins og talað er um Halloween og Thanksgiving hér á landi.
Síðarnefndi hátíðisdagurinn var í gær og kalkúnn víða á borðum. Hann er étinn í Bandaríkjunum á þessum degi til að minnast landnema sem komu að strönd Massachusetts um 1620.
Við gætum bráðum farið að sækja um að verða 51ta ríkið. Við fengjum okkar eigin stjörnu í bandaríska fánann og værum laus við verðtrygginguna.
Getum haldið upp á þetta með því að horfa á bandarísku jólamyndirnar. Vísir.is birtir dagatal yfir jólamyndirnar sem segir að hljóti að „fara á ískápinn“. Þær eru allar amerískar, nema þar er ein bresk – hún reyndar fjarska ameríkaníseruð.
