
Merkilegt er að fylgjast með viðbrögðunum við atburðunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Pútín Rússlandsforseti er orðinn feikilega vinsæll á Vesturlöndum, sérstaklega hjá þeim sem eru yst til vinstri og yst til hægri. Vinstrimennirnir fíla hann vegna þess að þeir telja að hann sé að sýna Bandaríkjunum tvo í heimana, það er alltaf vinsælt, en hægrimennirnir eru hrifnir af honum vegna þess að þeim finnst aðdáunarvert að hann sé að sprengja múslima. Rússum er meira að segja fyrirgefið þótt þeir hendi sprengjunum af fádæma ónákvæmni, ekki bara á ISIS, heldur líka á alls kyns aðra hópa sem berjast í Sýrlandi og auðvitað á óbreytta borgara.
Á sama tíma eru vinsældir Tyrkja mjög litlar. Andúð á Tyrkjum er svosem gamalgróin í Evrópu, en nú horfum við upp á Tyrkland sem vegur salt milli austurs og vesturs, þarf að gæta hagsmuna sinna báðum megin og gengur það ekki sérlega vel. Því þótt Tyrkland sé enn í Nató hefur Erdogan fært það lengra inn í hinn íslamska heim – fjær Evrópu. Það speglast meðal annars í miklu harðari afstöðu gegn Ísrael en áður, gríðarlegum viðskiptahagsmunum gagnvart olíuríkjum við Persaflóa og því að Erdogan náði að kveða í kútinn forystu tyrkneska hersins sem löngum stóð vörð um hinar veraldlegu hugsjónir Ataturks, föður nútíma Tyrklands, og greip inn í ef trúarvæðingin gekk of langt. Eitt af því sem Erdogan tókst að gera var að aftengja hættuna á því að herinn tæki völdin, eins og alltaf var möguleiki ef herforingjar töldu ríkja upplausnarástand eða ef hvarflað var frá hugmyndum Ataturks. Enn eru myndir af Ataturk alls staðar í Tyrklandi, en stundum virkar það eins og sýndarmennska, því stjórnvöld umgangast arfleifð hans eins og þeim hentar.
Á sama tíma er Tyrkland sjötti vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heiminum, mikið af því eru ofurvenjulegir evrópskir borgarar í sólarlandaferðum. Fjöldi ferðamanna árlega nálgast 40 milljónir. Tyrkir hafa fjárfest gríðarlega í túrismanum, en nú er spurning hvort ferðamenn skynji slíka ógn að þeir kæri sig ekki um að fara til Tyrklands lengur.
Það væri mikið högg fyrir efnahagslíf Tyrklands sem hefur verið í ótrúlegum uppgangi nokkuð lengi. Þeir eru um margt líkir, Erdogan og Pútín – jú, þeir eru báðir frekar ógeðfelldir – en það má sá fyrrnefndi eiga að hann er miklu betri í efnahagsmálum.