
Ég hef mörgum sinnum undanfarin ár bent á að við lifum í raun á afskaplega góðum tímum þegar ríkir meiri friður á jörðinni en löngum áður og velmegun breiðist út. Ég hef orðið var við að sumu fólki finnst þetta alveg fáránlegt, í fjölmiðlaveruleikanum er alltaf allt að fara til andskotans og svo magnast tilfinning óöryggis og óvissu upp í gegnum samskiptamiðlana. Þetta er veruleiki sem sænski fræðimaðurinn Hans Rosling hefur lýst ágætlega, og líka Harvardprófessorinn Stephen Pinker.
En við höfum dæmi í sögunni um að friður hafi spillst á skömmum tíma. 1914 var velmegunar-, menningar- og framfaraskeið í Evrópu, það var í raun engin ástæða til að fara í stríð en samt töluðu menn sig út í stríðsátök með furðulegum hætti, stríðsæsingar mögnuðust með hætti sem maður á nú mjög erfitt með að skilja – í algjöru tilgangsleysi.
Er hætta á því að eitthvað svipað gæti gerst aftur, að meðfram því sem magnast ótti – sem blæs upp langt umfram það sem tilefni er til – og með uppgangi öfgaafla, spillum við friðnum og þrengjum að frelsinu?
Það er heldur ekki alveg víst, mitt í þeim útbreidda pólitíska leiða sem ríkir um þessar mundir, að menn átti sig nógu vel á því að hugsjónirnar sem hin opnu lýðræðissamfélög Evrópu byggja á eru þess virði að verja þær. Þær ættu að vera okkar ær og kýr.
Andri Snær Magnason rithöfundur setti þessa hugleiðingu á Facebook í gærkvöldi:
Bara ein spurning. Hvenær hefur Evrópa verið skárri en hún er núna? Var það 1914 – 1918? Eða voru það kreppuárin? Nei varla og ekki stríðsárin og ekki 40 árin eftir stríð þegar öll austurblokkin var í járnum. Og austurblokkin opnaðist ekki fyrr en kringum 1990 og það hefur tekið hana nokkur ár að jafna sig.
Á þessum tíma hef ég eignast vini í hverju einasta Evrópulandi frá löndum sem mig grunaði ekki að ég ætti eftir að heimsækja þegar ég var lítill. Á þessum tíma hefur maður farið til Póllands og Eistlands og Litháen án þess að geltandi Schefferhundar bíði manns við hver landamæri og innanbæjarlest tekur mann frá Malmö til Kaupmannahafnar á tíu mínútum.
Já hvenær er gullöld Evrópu? Var það fyrir fimm árum? Eða kannski núna? Það loga eldar og fólk flýr – 99.99% gott og fallegt fólk, sem flýr fjandans hernaðarvélina. Og ég skil strákana vegna þess að hetjur flýja stríð. Það er slæmt að vera kona og barn í stríði – en miklu verra að vera karlmaður.
Og ég held að það sé hægt að endurbyggja Sýrland á styttri tíma en fátækar ekkjur endurbyggðu Varsjá. Er það hægt? Já – það er hægt – Evrópa sannar það. Hún sannar að andstæðar fylkingar geta hreinlega opnað landamærin. Það er barnaskapur að sakna Evrópu þar sem hver og ein þjóð skellir í lás og ,,stendur í lappirnar“. Eru gallar? Já alveg hundraðþúsund gallar. Milljón hlutir sem þarf að laga – ekki síst umhverfismálin. En hvað sem öllu líður – þá er þetta líklega skásti heimur allra heima og það er hægt að gera hann betri.