
Ein af hinum ofurbjartsýnu hugmyndum áranna eftir að kommúnisminn féll var að tæknin myndi ryðja burt öllum hindrunum á vegi lýðræðisins, að einræði og kúgun myndu ekki standast allar upplýsingarnar sem flæddu um heiminn í gegnum tölvur og sjónvarpsskjái.
Við áttum að upplifa endalok sögunnar, fullnaðarsigur lýðræðis- og markaðsbúskapar, eins og einn fræðingurinn hélt fram. Þetta var tíminn þegar fréttastöðvar sem sendu út allan sólarhringinn litu dagsins ljós – og svo internetið nokkru síðar.
Þetta hefur farið mjög á annan veg. Upplýsingabyltingin hefur í raun upplýst voða lítið.
Harðstjórar, einræðis- og kúgunaröfl hafa líka lært á hana. Áróður er ísmeygilegri en áður, það hefur aldrei verið jafn erfitt fyrir almenning að sjá í gegnum hann.
En á samskiptamiðlum er enginn að reyna að fræðast um neitt eða komast nær sannleika eða staðreyndum, heldur ota menn fram sinni fullvissu. Það skiptir aldrei neinn um skoðun á Facebook. Flóð túlkana og skoðana er linnulaust – að maður tali ekki um samsæriskenningar, ranghugmyndir og margvíslegar útgáfur af heimsendaspám – á Facebook er þetta allt jafngilt og um leið ágerist sú tilfinning að allt sé að fara til andskotans í heiminum, þótt við lifum í raun á góðum tímum eins og Hans Rosling segir hér að neðan.
En umræðan í fjölmiðlum og á netinu heldur áfram að fóðra óttann og svo nærir hann sjálfan sig – í þessum flaumi er sífellt erfiðara að koma auga á hvað eru staðreyndir, hvað er sannleikur og hvert er hið stóra samhengi. Atburðir síðustu vikna hafa verið glöggt dæmi um þetta.