fbpx
Föstudagur 14.nóvember 2025
Eyjan

Innrásin í Írak er móðir Daesh en faðirinn er Saudi Arabía

Egill Helgason
Sunnudaginn 22. nóvember 2015 11:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður les ýmsar ágætar greinar um hryðjuverk og atburðina í París í síðustu viku. Framboðið er ansi mikið. Mbl.is birtir grein eftir norska höfundinn Åsne Seier­stad sem nefnist Baráttan gegn gráa svæðinu:

Ríki íslams veit hvað það vill. Hryðju­verka­sam­tök­in fela ekki mark­mið sín. Í þeirra eig­in miðli, Dabiq, sagði í fe­brú­ar á þessu ári að mark­miðið væri „eyðing gráa svæðis­ins“. Bar­átt­an gegn gráa svæðinu hófst, sam­kvæmt Dabiq, með árás­un­um 11. sept­em­ber 2001. Þá urðu til tvenn­ar her­búðir, sem mann­kyn gat valið á milli: Her­búðir íslams og her­búðir hinna van­trúuðu.

Miðill IS vís­ar til yf­ir­lýs­inga Osama bin Ladens: „Bush sagði sann­leik­ann þegar hann sagði: „Annaðhvort ert þú með okk­ur eða þú ert með hryðju­verka­mönn­un­um“, það vill segja, annaðhvort fylg­ir þú kross­för­un­um eða íslam.“ Ríki íslams get­ur ein­fald­lega gert mál­flutn­ing Geor­ge Bush um öxul hins illa að sín­um, í þeirra aug­um nær öxull­inn aðeins til annarra svæða, annarra ríkja.

Líkt og Bush krefst Ríki íslams þess að maður sé með eða á móti. Það sem þeir hata mest og líta á sem áskor­un um hólm­göngu er gráa svæðið. 11. hverfi í Par­ís er dæmi um það. Hér búa hinir van­trúuðu við hlið múslima, sem í aug­um IS eru ekki rétt­trúaðir, held­ur svik­ar­ar, lodd­ar­ar og meðhlaup­ar­ar. Það sem við köll­um ver­ald­lega eða hóf­sama múslima.

Gráa svæðið er víg­völl­ur IS. Það er að finna í öll­um evr­ópsk­um stór­borg­um. Maður finn­ur það á milli svarts og hvíts. Milli okk­ar og þeirra. Milli með og á móti. Það er hægt að segja að svæðið sé grátt, en maður get­ur líka kallað það lit­ríkt. Föru­neyti hins lit­ríka er í huga sumra hrós, en skamm­ar­yrði í huga annarra, sem líta á það sem barna­skap, sem muni leiða okk­ur til glöt­un­ar. Rétt eins og hægri öfga­menn hata hið lit­ríka hat­ar Ríki íslams gráa svæðið. Þetta eru tvær lýs­ing­ar á sama hlutn­um.

Kamel Daoud er rithöfundur frá Alsír. Hann fékk frönsku Goncourt-verðlaunin á þessu ári fyrir bókina Mersault, hún er eins konar svar við skáldsögunni Útlendingnum eftir Albert Camus – sem einnig var frá Alsír. Daoud ritar grein sem birtist í The New York Times, bæði á frönsku og ensku undir fyrirsögninni Saudi Arabía, Daesh sem tókst ætlunarverk sitt.

Hér er greinin í íslenskri þýðingu, nokkuð lauslegri:

Svarta Daesh, hvíta Daesh. Hið fyrra sker fólk á háls, drepur, grýtir, heggur af hendur, eyðileggur sameiginlegan arf mannkynsins og hatast við fornleifar, konur og þá sem eru ekki múslimar. Hið síðara er betur klætt og snyrtilegra, en gerir sömu hlutina. Íslamska ríkið: Saudi-Arabía. Í baráttunni gegn hryðjuverkum fer Vestrið í stríð við annað, en tekur í höndina á hinu. Þetta eru vélar afneitunarinnar og afneitunin er dýru verði keypt: að viðhalda hinu fræga bandalagi við Saudi-Arabíu um leið og breitt er yfir að þetta konungsríki byggist á samneyti við klerkaveldi sem getur af sér, prédíkar, breiðir út, lögleiðir og ver Wahhabisma, hina ofurhreinstefnulegu útgáfu af íslam sem Daesh nærist á.

Hinn róttæki og messíaníski Wahhabismi á upptök sín á 18. öld og hefur að markmiði að endurreisa ímyndað kalífaveldi sem hefur miðpunkt sinn í eyðimörkinni, í helgri bók og á tveimur heilögum stöðum, Mecca og Medina. Þessi trúarstefna varð til í fjöldamorðum og blóði og birtist í afkáralegri afstöðu til kvenna, banni við því að þeir sem eru ekki múslímar stígi á helga jörð og harðneskjulegum trúarlögum. Þetta leiðir af sér þráhyggjulegt hatur á myndum og þarafleiðandi list, en einnig á líkamanum, nekt og frelsi.

Afneitun Vestursins gagnvart Saudi-Arabíu stingur í augu: Það hampar þessu trúræði sem bandamanni en þykist ekki taka eftir því að hugmyndafræðilega er það helsti boðberi íslamismans. Yngri kynslóð róttækinga í hinum svokallaða Arabaheimi fæddist ekki sem jihadistar. Hún fékk næringu í Fatwa-dal, eins konar íslamísku Vatíkani með stórum vitundariðnaði sem getur af sér guðfræðinga, trúarlög, bækur, árásargjarna blaðamennsku og miklar fjölmiðlaherferðir.

Eru kannski einhver rök gegn þessu: Má ekki nefna að Saudi-Arabía er líka mögulegt skotmark Daesh? Jú, en ef við einblínum á það sjáum við ekki hversu sterk tengslin eru milli ríkjandi valdaættar og klerkadómsins sem tryggir henni stöðugleika – en er líka að nokkru leyti ástæðan fyrir því hversu veikt hún stendur. Konungsættin er föst í gildru: Hún er veikluð vegna flókinna reglna um ríkiserfðir og hún er ofurseld sterkum tengslum milli konungs- og klerkaveldis. Klerkarnir getur af sér íslamista sem í senn ógnar landinu og veitir ríkisstjórninni lögmæti.

Maður þarf að búa í múslímaheiminum til að skilja hversu gríðarleg áhrif trúarlegar stjónvarpsstöðvar hafa á samfélagið, einkum á veikustu hlekki þess: heimilin, konur, dreifbýli. Íslamísk menning hefur breiðst út til margra landa – Alsír, Marokkó, Túnis, Líbýu, Egyptalands, Malí, Mauritaníu. Það eru gefin út mörg þúsund íslamísk dagblöð og útbreiðsla sjónvarpsstöðva eins og Echouruok og Iqra er mikil. Klerkaveldið útbreiðir eina og sameinaða sýn á heiminn, þar eru fyrirmæli um hvernig lifa skal samkvæmt hefð, um klæðaburð og framkomu í almannarými, um hvernig löggjöf skal orðuð og hvernig bregðast skal við samfélögum sem talin eru vera gegnsýrð af villu.

Það er vel þess virði að lesa sum íslamísk dagblöð til að sjá viðbrögð þeirra við árásunum í París. Vestrinu er lýst sem landi “vantrúaðra”. Árásirnar voru afleiðing herferðar gegn íslam. Múslimar og Arabar hafi verið lýstir óvinir af hinum vantrúuðu og af gyðingum. Það er vísað í Palestínumálið og meðferðina á Írak og minningar um hrylling nýlendutímans, öllu þessu er pakkað inn í messíaníska orðræðu sem á að æsa upp fjöldann. Slíkt tal breiðist út um neðri lög samfélagsins, á meðan stjórnmálaleiðtogarnir í efri lögunum senda samúðarkveðjur til Frakklands og fordæma glæp gegn mannkyninu. Þessi geðklofna afstaða á sér hliðstæðu í afneitun Vestursins gagnvart Saudi Arabíu.

Þetta veldur því að maður er fullur efasemda gagnvart hástemmdum yfirlýsingum leiðtoga vestrænna lýðræðisríkja um nauðsyn þess að berjast gegn hryðjuverkum. Stríð þeirra verður mjög nærsýnt, því það beinist gegn afleiðingunum fremur en orsökinni. ISIS miklu fremur menningarástand en herlið,  hvernig er hægt að  komia í veg fyrir fyrir að komandi kynslóðir helgi sig jihadisma –  þegar ekkert er gert til að hrófla við áhrifum Fatwa-dalsins, klerkanna þar, menningarinnar sem þar er boðuð og hinnar ágengu blaðamennsku?

Er þá auðvelt að lækna þennan sjúkleika? Varla. Saudi-Arabar eru bandamenn Vestursins í hinu margþætta tafli sem fer fram í Miðausturlöndum. Þeir eru teknir fram yfir Íran, hið gráa Daesh. En í því er einmitt falin brotalöm, ímyndað jafnvægisástand:  Jihadismi er fordæmdur sem helsta ógn samtímans en ekkert er hugsað um hvað skóp hann eða hvaðan hann fær stuðing. Þetta gerir mönnum kannski kleift að bjarga andlitinu en það bjargar ekki mannslífum.

Daesh á móður: innrásina í Írak. En það á líka föður: Saudi Arabíu og hugmyndafræðiðnaðinn í því landi. Ef íhlutun Vesturlanda hefur fært hreyfingunni tilgang, þá hefur konungríki Sauda gefið henni hugmyndir og trúarkreddur. Ef menn skilja þetta ekki, þá tapa þeir stríðinu þótt hægt sé að vinna einhverjar orrustur. Það verður hægt að drepa jihadista, en þeir fæðast þá bara aftur í komandi kynslóðum sem verða aldar upp á sömu bókum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Peppræðan uppfull af taugatitringi, hroka og ráðaleysi

Orðið á götunni: Peppræðan uppfull af taugatitringi, hroka og ráðaleysi
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjólað í snjókomu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjólað í snjókomu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Dagur B. Eggertsson: Fórnarlömb málþófsins fjölmörg – auka álagið á þingið í vetur

Dagur B. Eggertsson: Fórnarlömb málþófsins fjölmörg – auka álagið á þingið í vetur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Það verður bara að buffa þá, sagði yfirlögregluþjónninn

Reynir Traustason: Það verður bara að buffa þá, sagði yfirlögregluþjónninn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis

Reynir Traustason: Sonja var ógleymanleg – í ævilöngu sambandi við Onassis