

Vestrið er ekki saklaust þegar leitað er að rótum íslamskra hryðjuverka, en það er óheiðarlegt að halda því fram að þau séu einungis svar við stefnu Vesturlanda. Ekki minni áhrifavaldur sé róttæk bókstafstrú sem er nærð af olíuauði Saudi-Arabíu.
Þetta skrifar Harbir Singh, bankamaður og verkfræðingur sem búsettur er á Indlandi, á vef The Nation.
Singh er mjög gagnrýninn á það viðhorf að Vesturlönd geti kennt sér sjálf um hryðjuverk íslamista. Upptakanna sé fremur að leita í Saudi-Arabíu sem noti olíugróða til að dreifa hatursfullri útgáfu af íslam í gegnum moskur og skóla sem ríki þetta fjármagnar víða um heim. Þetta hafi tekist svo vel að meira að segja frjálslynt fólk á Vesturlöndum sé sífellt að kenna sínum eigin ríkisstjórnum um framgang íslamska terrorismans.
Dráp múslíma á öðrum múslimum séu afar sjaldan nefnd í vestrænum fjölmiðlum – það sé alltaf stokkið beint í að ræða íhlutun Bandaríkjanna. Singh nefnir fjöldamorð svonefndra Janjaweed-sveita í Súdan og mjög lítt þekkt fjöldamorð Pakistana í Balochistan. Hann nefnir líka að í síðara Íraksstríðinu hafi langflestir fallið, ekki vegna árása Bandaríkjamanna, heldur hafi sveitir skipaðar múslimum verið þar að verki – múslimar að drepa aðra múslima. Þar er víglínan dregin milli shía og sunnía, rétt eins og í Sýrlandi.
Vestrið taki á móti flýjandi fólki frá óvinaríkjum – nú frá Sýrlandi. Þetta sé samkvæmt gamalli hefð, á sínum tíma var tekið á móti fólki frá Vietnam eða Rússlandi. Þetta geri Saudi-Arabía eða ríkin við Persaflóa ekki. Þar séu heldur ekki uppi neinar raddir sem sporna gegn stöðugum hatursáróðrinum gegn Vesturlöndum. Þeir sem andæfi honum eigi á hættu að vera pyntaðir eða drepnir.
Þetta er ekki einföld staða, segir Singh. Vissulega hafi Vesturlönd á köflum rekið skammsýna og siðlausa stefnu – þar sé margt fullkomlega óverjandi. Olía kemur þar oft við sögu. En það sé ekki afbötun fyrir glæpsamlegu framferði harðstjóra og klerka í heimi íslams.
Það sé staðreynd að frá Pakistan til stranda Miðjarðarhafsins, og inn í múslimahverfi Bretlands, sé útbreitt hatur og fyrirlitning á þeim sem ekki eru múslimar sem er algjörlega handan við allt sem getur talist eðlilegt eða sæmandi. Það sé óheiðarlegt að líta framhjá þessu um leið og er stanslaust talað um vestræna heimsvaldastefnu.
Lykillinn að þessu sé veraldlegt samfélag – það grundvallaratriði að fólk af ólíkum trúarbrögðum geti lifað saman í sátt og samlyndi, þar sem trúin er sett til hliðar þegar gert er út um samfélagslega álitaefni. Sekúlarisma er varla að finna í samfélögum múslima, skrifar Singh, og í Indlandi sækja nú ofsatrúaðir hindúar að honum – þarna séu róttæklingar af tvennum trúarbrögðum sem sameinist um að vera á móti samfélagi sem leyfir fólki að njóta sín sem manneskjur alveg burtséð frá því hvað það trúir.