
Það hefur verið sagt að auðhringar séu sýkópatar. Semsagt að ef þeir fái sínu fram óáreittir muni þeir ekki taka tillit til neins nema sjálfra sín og gengis á hlutabréfamörkuðum. Þeir muni gefa skít í samfélag, umhverfi, það telst vera siðlegt.
Um þetta var eitt sinn gerð ágæt heimildarmynd og bók sem nefnist The Corporation. Var til umfjöllunar í Silfri Egils á sínum tíma.
Framganga álfyrirtækja á Íslandi virðist staðfesta þetta. Íslendingar hafa fórnað miklu til að álfyrirtækin geti starfað hérna. Það hefur verið lagt í gríðarlegan kostnað við að byggja virkjanir til að útvega álverum rafmagn. Umhverfiskostnaðurinn hefur verið mjög hár – náttúruperlum hefur verið fórnað og unnin mikil spjöll á landi.
Þetta hefur líka kostað samfélag okkar mikið sundurlyndi. Fátt hefur klofið íslenska þjóð meira en deilur um stóriðju og raforkuöflun fyrir hana.
Maður myndi halda að skikkanleg fyrirtæki tækju tillit til þessa. Kæmu fram við Íslendinga af ítrustu kurteisi og tillitssemi. En nei, það er ekki í eðli auðhringa. Með bókhaldsbrellum kemur auðhringurinn Alcoa sér hjá því að borga skatta á Íslandi. Það er búið til tap svo hægt sé að flytja fjármuni úr landi í staðinn fyrir að greiða þá hér. 57 milljarðar hafa runnið til móðurfélags í Luxemborg í formi vaxtagreiðslna og eru ekki skattlagðar hér.
Nú segir kannski einhver, þetta skapar svo mikla atvinnu að við getum ekki kvartað. En nei, það er fullt af fyrirtækjum á Íslandi sem hafa fólk í vinnu og greiða skatta og skyldur af samviskusemi. Komast heldur ekki upp með annað. Það er í raun ótrúlegt að stjórnvöld skuli ekki hafa látið til skarar skríða gegn þessu athæfi.
Marinó Gunnar Njálsson setur fram þessa athugasemd á Facebook:
Í bókinni Hidden wealth of Nations er því haldið fram að eignir fyrirtækja í skattaskjólum hafi aukist um 25% bara síðustu 5 ár. (Bókin kom út í haust.) Já, við erum þróunarland þegar kemur að þessu. Þessi undanlátsemi við erlenda auðhringa er ótrúleg. Ráðamenn sleikja tærnar á þeim sem hingað koma til að arðræna þjóðina og halda að mikil upphefð sé í því að komið sé fram við okkur eins og nýlenduþjóð. Gleymum svo ekki, að fyrir utan vextina sem auðhringurinn flytur úr landi, þá þarf að borga vexti og afborganir lána vegna virkjunarinnar, háspennulínanna og hafnarframkvæmdanna.