

Hér er sérlega skilmerkilet myndband sem er vel þess virði að eyða fimm mínútum í að horfa á. Þarna er rakin saga átakanna í Sýrlandi og flokkadrættir skýrðir út.
Íran, Hezbollah og Rússland standa með Assad. Rússar eru gamlir bandamenn Assadfeðganna, en hvað varðar Íran og Hezbollah er skýringin sú að þarna eru shía-múslimar á ferð.
Sé þetta trúarbragðastríð, þá er það innbyrðis stríð innan íslam, mill shía og súnní múslima.
Saudi-Arabar og ríki við Persaflóa auk Jórdana styðja uppreisnarhreyfingar gegn Assad og það gera Tyrkir með sínum hætti – nokkuð á laun.
Kúrdar eru í raun einir á báti, eins og þeir hafa alltaf verið.
En Bandaríkin hafa verið að reyna að styðja uppreisnina gegn Assad sem hófst með lýðræðislegum mótmælum 2011 – uns Assadstjórnin fór að skjóta á fólkið – án þess þó að styðja Isis/Daesh. Það er stjórn Assads sem ber ábyrgð á langmestu mannfallinu í stríðinu og dauða fjölda saklausra borgara, meðal annars með því að nota efnavopn.
Þegar uppreisnin hófst runnu bókstafstrúaröflin á bragðið og þyrptust til Sýrland – og þá ekki síst frá Írak. Eitthvað af því eru leifarnar af her Saddams Hussein – sem Bandaríkjamenn gerðu ægileg mistök þegar þeir leystu hann upp. Assad er reyndar sagður hafa látið ofsatrúarmenn lausa úr fangelsum svo þeir gætu gengið til liðs við uppreisnaröflin – til að sverta þau í augum heimsins.
Al Queda kom snemma á vettvang, en síðar kom til skjalanna enn ofsafengnari hreyfing, ættuð frá Írak, semsagt Isis/Daesh, Hið íslamska ríki Íraks og Sýrlands. Hreyfingin berst ekki sérstaklega gegn Assad, heldur gegn hinum uppreisnarhópunum og Kúrdum. Tilraunir Bandaríkjanna til að styðja hófsamari uppreisnaröfl til að berjast gegn Isis/Daesh hafa mistekist hrapallega.
Tyrkir varpa sprengjum á sveitir Kúrda – á sama tíma og Kúrdarnir eru að berjast gegn Isis/Daesh í Sýrlandi. En staða Assad veikist stöðugt og hann tapar landsvæðum uns Rússar koma til skjalanna með meiri stuðning. Rússar segjast ætla að gera sprengjuárásir á Isis/Daesh en í raun eru þeir að varpa sprengjum á þá sem berjast gegn Assad, líka sveitir sem njóta stuðnings Bandaríkjanna.
Glundroði, mörg erlend ríki sem eru að hæra í pottinum – og enginn endir í sjónmáli.
https://www.youtube.com/watch?v=Cgi9tz3IZWQ