

Í Kiljunni í kvöld fjöllum við meðal annars um nýja bók eftir Pál Baldvin Baldvinsson sem fjallar um stríðsárin á Íslandi, tímann frá 1938 til 1945. Páll velur að byrja söguna aðeins áður en heimsstyrjöldin hefst – það er í raun mjög eðlilegt.
Meðal þess sem fræðast má um í þessu mikla riti (1100 blaðsíður, 3000 myndir) eru flóttamenn sem reyndu að komast til Íslands á árunum fyrir stríð, fæstum tókst að komast hingað, þeir fengu flestir synjun um landvist, sumir komust hingað en voru hraktir aftur burt, en svo eru dæmi um flóttamenn sem fengu að dvelja hér og auðguðu íslenskt mannlíf með merkilegum hætti. Þeirra er líka getið í bókinni.
En viðhorfið til flóttafólksins var mjög misjafnt, þeir áttu sér ekki svo marga formælendur á þessum árum þegar veröldin sigldi inn í formyrkvun haturs og ofbeldis. Í bókinni er til dæmis birtur þessi kafli úr leiðara Vísis frá 1938, en það vars þá eitt helsta dagblaðið. Einhvern veginn finnst manni að stef sem þarna er að finna endurómi líka í samtíð okkar.
Hér má sjá síðu Kiljunnar á Facebook.
