
„Ímyndaðu þér hvað óvinur þinn vill að þú gerir og gerðu þveröfugt við það. Enginn lærdómur stríðs er jafnoft sniðgenginn og þessi.“
Þetta segir Sir Simon Jenkins, einn frægasti blaðamaður Bretlands, í grein sem hann skrifar í The Guardian í dag.
Jenkins segir að síðan á föstudag hafi Vesturlönd uppfyllt drauma Íslamska ríkisins. Það hafi lyft verkum þess á stall frægðar – allur heimurinn hafi verið dreginn inn í óttavef Isis. Jenkins segir að kraftur hryðjuverka liggi ekki í athöfninni sjálfri, heldur í því sem á eftir kemur. Viðbrögðin séu það sem gefur þeim pólitískt vægi. Rétt eins og Osama bin Laden eftir 11/9, vilji Isis að veröldin gangi af göflunum, lýsi yfir neyðarástandi, þrengi að frelsinu, ofsæki hófsama múslima og sprengi borgir í hinum íslamska heimi.
Með því að láta undan þessu hafi vestrið gefið hryðjuverkaógninni stóraukinn kraft – og um leið hafi líkurnar á eftirhermum vaxið.
Jenkins segir að leiðtogar Vesturlanda virðist ónæmir fyrir skynsamlegum rökum. Páfinn tali um þriðju heimsstyrjöldina. David Cameron tali um Hitler og nasista. Hvort tveggja sýni litla þekkingu á mannkynssögunni. Viðbrögðin nú séu að setja meira fé í vopnavæðingu. Sprengjum sé varpað á Raqqa – þær drepi saklaust fólk á jafn skilvirkan hátt og byssur á jörðu niðri. Allir þrýstihópar sem berjast gegn frelsi á Vesturlöndum séu að stíga fram úr skugganum.
Bin Laden sýndi að fjöldamorð næra stjórnmál óttans, ótta sem brenglar dómgreind lýðræðisins, veldur viðbrögðum sem eru úr hlutfalli við tilefnið og skapar nýja og hræðilega óvini. Grimmdarverk kalla á sorg og samúð. Fjöldamorðin í París voru harmleikur. Það hefði ekki átt að túlka þau sem stríðsaðgerð.
Stríð er barátta milli ríkja. Þessi morð ógna ekki sjálfsforræði neins ríkis. Sú ógn kemur frá því hvernig við bregðumst við – með því að leika leik hryðuverkamannanna. Meðferðin á Isis styrkja tilkall þess til að heyja heilagt stríð. Hví ætti vestrið að færa Isis slíkan sigur þegar við ættum að vera nógu sterk til að bjóða upp á þögla fyrirlitingu? – spyr Simon Jenkins.