

Af Vísi.is í morgun:
Forsetinn var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni nú í morgun og var býsna afdráttarlaus í tali. Þar upplýsti Ólafur Ragnar Grímsson um að hann hefði komist að því á fundi með fulltrúum erlends ríkis fyrir nokkru að ríki sem vill rækta öfgakennt íslam vildi skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi. Væntanlega er Ólafur Ragnar þar að tala um Saudi-Arabíu.
Nú, það fer varla milli mála því á vef forsetaembættisins segir beinlínis frá svona fundi milli Ólafs Ragnars og sendiherra Saudi-Arabíu. Þar birtist líka myndin sem er hér að neðan.
Þá greindi sendiherrann frá því að Sádi Arabía styddi byggingu væntanlegrar mosku í Reykjavík, myndi leggja fram rúmlega eina milljón Bandaríkjadala til byggingar hennar og að hann hefði í gær skoðað lóðina þar sem moskan myndi rísa.
En fyrr á þessu ári birti WikiLeaks skjöl þar sem greinir frá því að Ólafur Ragnar hafi þrýst á um nánara samband við Saudi Arabíu. Þess ber að geta að forsetaembættið lýsti því yfir að frásögnin væri ekki rétt.
Að þessu sögðu er það auðvitað öllum í hag að myndist alþjóðleg samstaða gegn fasistaríkinu Saudi-Arabíu því hvort tveggja fjármagnar það hryðjuverk og beitir þegna sína hryllilegri trúarkúgun. Það sýnir einmitt tvískinnunginn í baráttunni gegn hryðjuverkum að þjóðir vestursins skuli bukka sig og beygja fyrir hinni ógeðslegu ríkisstjórn Saudi-Arabíu.
