
Það er náttúrlega bilun að þessi þjóð skuli búa við 6 prósent vexti – sem fara hækkandi – meðan vextir í nágrannalöndum eru í kringum 1 prósent.
Og það er enn bilaðra að svona verður þetta nær örugglega til langframa – það er ekkert að gerast sem bendir til þess að þetta breytist. Ekki verður séð að stjórnvöld hafi nein áform um slíkt.
Þetta þýðir einfaldlega að fjármögnun er óbærilega dýr á Íslandi. Ef maður fær lánaða peninga til að byggja upp fyrirtæki á Íslandi verður það að skila skjótum hagnaði. Hæg uppbygging og til langframa er eiginlega ekki í boði.
Skjóttekna gróðann er núna að finna ferðaþjónustunni, hversu lengi sem það endist, en annars dettur manni ekki í hug mikið af starfsemi sem myndi standa undir svona vöxtum – kannski helst kannabisrækt (það er raunar sagt að Íslendingar séu orðnir sjálfum sér nógir um hana og að þeir rækti úrvals efni).
Stóru fyrirtækin á Íslandi eru fyrir utan þessa vaxtaáþján, þau hafa aðstöðu til að fjármagna sig í erlendum gjaldmiðlum. Icelandair kaupir ekki flugvélar á þessum vöxtum og Samherji byggir ekki upp flota sinn á þeim.
Nei, það eru litlu fyrirtækin og almenningur sem búa við vaxtasturlunina.