

Nú mæra menn Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslara Vestur-Þýskalands, sem er látinn í hárri elli. Stundum er reyndar eins og hans sé aðallega minnst fyrir að reykja í sjónvarpi – meira að segja sumum sem reykja ekki finnst það dálítið töff.
En þetta var ekki alltaf svona. Schmidt tók við embætti af Willy Brandt sem varð að hætta vegna njósnahneykslis. Brandt var rómantísk hetja, tilfinninganæmur, skáldlegur, maður hugmynda – miðað við hann var Schmidt eins og lítt aðlaðandi raunsæispólitíkus sem tilheyrði hægri væng SDP, þýska jafnaðarmannaflokksins sem þá var einn mesti fjöldaflokkur í Evópu.
Hann stjórnaði líka þannig, iðkaði jafnvægislist milli stórveldanna, en hallaðist svo skart til Bandaríkjanna þegar hann gerðist talsmaður þess að meðaldrægar kjarnorkuflaugar yrðu settar niður í Evrópu og beint að Sovétríkjunum. Stór hluti flokks Sósíaldemókrata var á móti þessu – þegar Schmidt hætti var flokkurinn í molum, Græningjar stálu fylginu í stórum stíl, eftir átta ár Schmidts í embætti ríkti kristilegi demókratinn Helmut Kohl í sextán ár.
En það sem kemur fyrst í hugann þegar litið er yfir feril Schmidts er hvernig hann braut á bak aftur borgarskæruliðana í Rote Armee Fraktion, öðru nafni Baader-Meinhof, borgarabörn upp til hópa sem hugðust með ofbeldi afhjúpa fasískt eðli sambandslýðveldisins. Eftir smá hik í fyrstu tók hann upp stefnu þar sem ekki var samið við hryðjuverkamenn og þeir voru miskunnarlaust eltir uppi. Schmidt var harður andkommúnisti – en undir lok ævinnar fór hann að bera í bætifláka fyrir Vladimir Putin.
Á einum stað les ég að Helmut Schmidt hafi verið vinsælli sem gamall stjórnmálamaður sem birtist í sjónvarpi en þegar hann hafði völd sem kanslari. Það má til sanns vegar færa.

„Stjórnmálamenn og blaðamenn eiga þau dapurlegu örlög sameiginleg að þurfa að að ræða um málefni í dag sem þeir skilja ekki till fulls fyrr en á morgun,“ eru ummæli sem Halldór Guðmundsson, vinur minn á Facebook, hefur eftir Helmut Schmidt. Þetta má heimfæra upp á stjórnmálaástandið í Evrópu í dag, en síðustu árin gagnrýndi Schmidt, sem var sannur evrópusinni, ESB fyrir skort á frumkvæði og forystu.