

Það verður að segjast eins og er að pistlar Guðbergs Bergssonar um dægurmál eru ekkert sérlega vel heppnaðir, það er líkt og hann sé að tala inn í samtíma sem er löngu liðinn og einhverja kima sem eru varla mjög áhugaverðir. Þetta er dálítið öðruvísi en þegar Guðbergur var að skrifa pistla í Helgarpóstinn kringum 1980, hann var að orði kveðnu að fjalla um myndlist, en fór um víðan völl – á þeim tíma keyptu sumir blaðið bara vegna skrifa Guðbergs.
Það er ekki þar með sagt að Guðbergur, sem er fæddur 1932, sé búinn að vera sem rithöfundur. Nei, í fyrra sendi hann frá sér skáldsöguna Þrír sneru aftur sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna (Guðbergur hefur unnið þau tvisvar, fyrir Svaninn og hina skáldlegu endurminningabók Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar).
Þrír sneru aftur fjallar reyndar um liðinn tíma, hún er söguleg; um það sem Guðbergur hefur mest skrifað um, hernámið og hinar stórfelldu breytingar sem urðu á Íslandi á árunum eftir stríð. Það verður að segjast eins og er að bókin Hin eilífa þrá sem kom út 2012 virkaði mestanpart eins og sérkennilegt raus, dálítið í anda pistlanna, en aftur á móti er Missir frá 2010 afskaplega þétt stutt skáldsaga um einsemd og elli.
Það er margt merkilegt við Guðberg. Eitt af því er hvað hann er í rauninni óíslenskur – hann var frá fyrstu tíð algjörlega ólíkur öðrum íslenskum höfundum. Hann virkaði frjálsari. Hann var undir afar litlum áhrifum frá Halldóri Laxness, hann lagði enga sérstaka rækt við stíl eða orðkynngi. Guðbergur gerði einhvern veginn allt á sínum eigin forsendum, alveg frá upphafi. Hann var nánast eins og geimvera hér í íslenska samfélaginu, það var líkt og hann þyrfti ekki neitt á öðrum að halda og hann lét engan eiga neitt inni hjá sér.
Það er dálítið spaugilegt, í ljósi umræðu síðustu viku, hvernig Hallgrímur Helgason skrifar um Guðberg í nýju bókinni sinni, Sjóveikur í München. Þarna lýsir hann ágætlega hvernig Guðbergur kom kynslóð okkar Hallgríms fyrir sjónir. Og, jú, við dáðumst að honum – en Guðbergur hefur aldrei verið sérlega mikið að þakka fyrir aðdáunina: