

Mikael Torfason vildi ekki heita Mikael, hann kallaði sig bara Mikka. Mikael minnti hann á veruna í Vottum Jehóva, en þegar hann var lítill drengur voru foreldrar hans meðlimir í þeim söfnuði.
Mikael var alvarlega veikur sem barn, var langdvölum á barnaspítala, en þá kom upp álitamálið hvort hann mætti fá blóðgjöf. Samkvæmt trú Votta var það óheimilt. En Mikael var við dauðans dyr. Er hugsanlegt að læknir á spítalanum hafi bjargað lífi hans með því að stelast til gefa honum blóð að næturþeli?
Mikael segir frá þessu í bókinni Týnd í Paradís sem kemur út nú í vikunni. Hún er til umfjöllunar í Kiljunni í kvöld.
Mikael lýsir foreldrum sínum sem voru ekki nema unglingar þegar þau eignuðust hann, fólki úr lægri þrepum samfélagsins sem var eiginlega ekki boðið upp á annað en vist í tossabekkjum. Sérstaklega er kaldhæðnisleg sagan af föður hans, Torfa, sem fær að vera í betri bekk í Miðbæjarskólanum í stuttan tíma, líður afar vel, en er rekinn burt þegar kemst upp að skólastjórnin hefur farið nafnavillt – pássið var ætlað öðrum Torfa af æðri stigum.
Jú, svona var Ísland.