
Fjölmiðlar fullyrða að David Cameron muni á fundi í Reykjavík hafna „norsku leiðinni“ í Evrópumálum, semsagt tengingu við ESB sem væri í ætt við EES samninginn. Þetta má til dæmis lesa í Guardian í morgun.
Við Íslendingar erum aðilar að EES og höngum þar aftan í Norðmönnum – upprunalega var samningurinn hugsaður sem einhvers konar biðsalur inn í sjálft Evrópusambandið, en nú lifir hann aðallega vegna Noregs. Við Íslendingar fljótum með.
Í EES samninginn er innbyggt bæði fullveldisafsal og lýðræðishalli, en einhvern veginn kærum við okkur kollótt um það. Þeir sem berjast gegn ESB á þeim forsendum ættu í raun líka að vera á móti EES. En það er ekki alltaf spurt um samræmi í þessari umræðu.
En það er býsna áhugavert að sjálfur forsætisráðherra Bretlands skuli ætla að koma hingað, á fund með forsætisráðherrum Norðurlandanna, og lýsa því yfir að þessi útfærsla sé ófullnægjandi fyrir Bretland og komi ekki til greina.
Eins og Guardian segir hefur Cameron fengið nokkurn stuðning frá Espen Eide, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, sem skrifar grein í blaðið í gær þar sem segir að Norðmenn borgi en ráði þó engu.
Það sem er ekki sagt er að þetta þýðir að við þurfum að beygja okkur undir reglur ESB um vörur, fjármagn, vinnuafl og við leggjum stórar fjárhæðir til sambandsins. Bretland, sem myndi velja þessa leið, myndi í öðrum orðum halda áfram að borga, það myndi halda áfram að taka við tilskipunum frá Brussel og það yrði sem fyrr að undirgangast frelsin fjögur, þar á meðal frjálsa för.