
Samkomulagið sem tilkynnt var í dag milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda um nýja aðferð við gerð kjarasamninga, svonefnt Salek er í anda þess sem heitir á erlendum málum korporatismi. Hugmyndin er sú að hagsmunahópar í samfélaginu komi saman í friði og leysi sín mál með misjafnlega mikilli aðkomu ríkisvaldsins. Í Þýskalandi og á Norðurlöndunum hefur þetta verið stundað lengi, korporatismi í ákveðinni mynd var reyndar iðkaður á tíma fasista, en var þá fremur beitt til að halda verkalýðnum niðri, honum fylgdi þá ákveðin nauðung.
Sósíaldemókratar og kristilegir demókrataflokkar Norður-Evrópu tóku upp korporatisma á árunum eftir stríð – sífellt samningaferli á vinnumarkaði skyldi koma í staðinn fyrir stéttabaráttu. Vissulega færði þetta almenningi miklar kjarabætur á löngu hagvaxtarskeiði, kerfið virkaði vel og er að nokkru leyti enn við lýði. Þessu fylgdi líka ákveðin krafa um sanngirni – og náttúrlega greining á efnahagsástandi sem hægt var að sameinast um. Slíkt getur kannski verið erfitt að finna á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi hafði lengi kjörorðið stétt með stétt, en í nýrri landsfundarsamþykkt flokksins er lokið lofsorði á það sem kallað er „norræna vinnumarkaðsmódelið“. Þetta er náttúrlega dálítið önnur hugmyndafræði en frjálshyggja í anda Reagans í Bandaríkjunum og Thatcher í Bretlandi þar sem beinlínis var stefnt að því að brjóta niður verkalýðshreyfinguna – og heppnaðist reyndar svo vel að réttleysi verkafólks er með ólíkindum.
Einhverjir verða kannski smeykir þegar þeir sjá Þorstein Víglundsson og Gylfa Arnbjörnsson taka saman höndum með þessum hætti og orðið þjóðarsátt vekur vissan ugg – eins gríðarlega ofnotað og það er. Vilhjálmur Birgisson, hinn skeleggi verkalýðsforingi á Akranesi, skrifar á Facebook:
Það verður ekki dónalegt fyrir Björgólf Jóhannsson forstjóra Icelandair Group og formann Samtaka atvinnulífsins þegar Samtök atvinnulífsins, stjórnvöld og æðsta forysta Alþýðusambands Íslands verða búin að koma á nýju vinnumarkaðslíkani sem byggir á samræmdri láglaunastefnu.
Láglaunastefnu sem byggist á því að ekki megi semja um meira en einhver fámennur elítuhópur ákvarðar á hverjum tíma fyrir sig. Samningsfrelsi og réttur stéttarfélaganna verða skert gríðarlega ef þessar hugmyndir um norrænt vinnumarkaðslíkan verða að veruleika því stéttarfélögunum verður væntanlega ekki heimilt að byggja sínar kröfur upp út frá góðri afkomu einstaka atvinnugreina eins og t.d. hjá Icelandair Group.
Mun launafólk t.d. sætta sig við ef þessi elítuhópur segir að svigrúm til launahækkana sé einungis 2,5% og ekki megi semja um meira? Ætlar launafólk sem er að starfa hjá atvinnugreinum sem skila milljarða hagnaði ár hvert að láta slíkt ofbeldi yfir sig ganga? Þessir menn eru að reyna þessa dagana að meitla í stein samræmda láglaunastefnu í svokölluðum Salekhóp. Launafólk fylgist vel með því sem er að gerast inni í reykfylltum bakherbergjum!
Svo mörg voru orð Vilhjálms. Við þetta má auðvitað bæta að aðilarnir sem mynda Salekhópinn hafa verið í nánu og dálítið kósí sambandi – hvar annars staðar en í lífeyrissjóðunum? Þar er einkennilegur skurðpunktur hagsmuna.