
Eftir að gerðir voru sögulegir kjarasamningar við lækna er eins og umræðan um heilbrigðiskerfið hafi þagnað. Það er helst að sé rætt um staðsetningu nýbygginga Landspítalans við Hringbraut – það er umræða sem virðist aldrei leiða til neinnar niðurstöðu. Fáir virðast vera sannfærðir um það í alvörunni að þetta sé góður staður, maður heyrir efasemdir frá æðstu ráðamönnum og framkvæmdir tefjast von úr viti.
En kannski er þetta ekki stærsta málið þegar heilbrigðiskerfið á í hlut. Sjálfur hef ég upplifað það í fjölskyldu minni að fólk er hikandi við að leita til læknis, einfaldlega vegna þess að það býst ekki við því að fá tíma eða þá þjónustu sem það gæti vænst.
Vilhjálmur Ari Arason læknir hefur verið óþreytandi við að berjast fyrir umbótum í heilbrigðiskerfinu. Hann starfaði lengi sem heimilislæknir en er nú hjá Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans. Hann hefur semsagt verið á stöðunum þar sem fólk leitar fyrst inn í heilbrigðiskerfið, þar sem það fær sína fyrstu greiningu – flestir þurfa sem betur fer ekki að fara lengra.
Í grein hér á Eyjunni dregur Vilhjálmur upp afar dökka mynd af ástandinu. Hann segir að heilsugæslukerfið sé svo gott sem hrunið, en það skapar álag á öðrum stöðum:
Þróunin í heilbrigðisþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu er að stöðugt eykst þörf á bráðaþjónustu fyrir lýðheilsusjúkdóma og smærri slys á sjálfu háskólasjúkrahúsinu, í stað hefðbundinnar heilsugæsluþjónustu á heilusgæslustöðvunum og sem allar aðrar þjóðir leggja höfuðáherslu á. Álagið í dag er allt að áttfalt miðað við það sem þekkist hjá nágrannaþjóðunum og eykst stöðugt. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er að hruni komin og þótt allir sem þar vinna reyni sitt besta. Fleiri og fleiri heilsugæslustöðvar reyndar orðnar nær heimilislæknalausar sem stöðugt þurfa að hlýða á skammir og verktökusamningar við eldri lækna úr hinum ýmsu sérgreinum á stærstu stöðvunum duga ekki einu sinni til.
Það gefur auga leið að ef heilsugæslan er í lagi minnkar álagið á aðra hluta kerfisins. Úrræði heilsugæslunnar eru líka ódýrari en þegar komið er inn á sjúkrahús. Vilhjálmur segir að á Íslandi sé varið merkilega litlu fé í þennan hluta heilbrigðiskerfisins.
Stöðugt yfirflæði á bráðamóttökurnar kallar nú á fjölgun starfskrafts og stærra húsnæði. Allt er þetta mikið í fréttum og þar sem spítalamálin eru oftar til umræðu. Stjórnmálamennirnir hafa heldur aldrei skilið rót vandans og benda endalaust á heilsutölur sem sýna að þrátt fyrir allt séu Íslendingar meðal heilbrigðustu þjóða heims. Enn sem komið er kannski en sem allt bendir nú til að muni breytast mikið í náinni framtíð. Aukinn einkarekstur og einkavæðing mun heldur ekki leysa vandann eins og þeir margir halda og geta orðið þjóðfélaginu frekar dýrari en ódýrari þegar upp er staðið.
Vitað er að kostnaður heilbrigðiskerfisins í dag á Íslandi er þó mun lægri miðað við þjóðartekjur en hjá flestum nágranaþjóðum okkar og þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð í dreifðu og erfiðu landi. Kostnaður við heilsugæslu og forvarnir er auk þess ekki nema aðeins rúmlega 3% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Samstaða á hinum pólitísku vængjum virðist samt ótrúlega mikil að spara meira og halda sig við framtíðarkreppuúræði við nýja þjóðarsjúkrahúsið okkar í gamla miðbænum. Með smjörklípuúrræðum og bútasaum, nánar tiltekið á Hringbrautarlóðinni. Ekki fastra fjárveitinga og langtímamarkmiða um fullkominn spítala á betri stað, sem dugað getur til lengrar framtíðar og kostar auk þess minna. Spítala sem alls ekki leysir heldur brýnasta vandann í dag en þar sem úrræðaleysið æpir. Á styrkingu heilsugæslunnar, fjölgun legudeilda og stórbætta þjónustu við aldraða.