

Hér á árum áður var kirkjan Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokkurinn kirkjunnar. Ég man að í hinum kristilega hluta fjölskyldu minnar datt engum í hug að kjósa annað en Sjálfstæðisflokkinn – fulltrúar hans voru mættir á bílum á kjördag til að aka fólkinu á kjörstað.
Einu sinni mun afi minn hafa nefnt að kannski mætti kjósa Alþýðuflokkinn, en því var ekki vel tekið.
Í ljósi þessarar sögu er merkilegt að heyra að uppi séu í alvörunni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins tillögur um að skilja á milli ríkis og kirkju. Löngum var reyndar á landsfundum nokkur fjöldi presta – er enginn klerkur á fundinum til að stoppa þetta?
Raunar er ekki sennilegt að þessi tillaga verði samþykkt – slíkt myndi eiginlega vera algjört rof í sögu flokksins.
Af þessu hefur svo spunnist dálítil umræða um stöðu kirkjunnar, en um helgina hefur líka birst skoðanakönnun sem sýnir að meirihluti Íslendinga vill aðskilnað. Agnes biskup segir að fyrir löngu sé búið að skilja milli ríkis og kirkju. Helgi pírati segist finna lykt af vitleysu, en Sigmundur forsætisráðherra er allt í einu farinn að taka mark á þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána 2012 og vitnar í hana.
Það er hins vegar merkilegt að sjá hvað sagnfræðiprófessorinn Gísli Gunnarsson hefur að segja um forsöguna. Gísli skrifar á Facebook og byggir á fræðilegum rannsóknum sínum:
Frá hámiðöldum til 1907 fékk allur þorri presta mestallar tekjur sínar af prestsetrum, sem þeir greiddu engin leigugjöld af, voru þar bændur, yfirleitt á góðum jörðum, og af leigutekjum jarða í eigu einstakra kirkna, Þær tekjur voru misháar eftir prestaköllum og mismunurinn í leigutekjum skildi einkum góð prestaköll frá þeim tekjurýrari. Margumrædd tíund var aðeins lítill hluti presttekna nema í Vestmannaeyjum og einnig í Reykjavík frá 1830. Með Ameríkuferðum og þéttbýlismyndun frá 1880 fóru leigutekjur af jörðum minnkandi ár frá ári og prestar kveinuðu mikið. Prestum til bjargar yfirtók ríkissjóður leigujarðir kirkna og greiddi þeim í staðinn föst laun, kjör presta bötnuðu þá almennt mikið. Þessar leigujarðir námu þá um 8% verðmætis allra jarða í landinu. Annað eins, 8%, voru öll prestsetur landsins, sem voru, og eru, áfram í kirkjueign. En fyrst 1997 var formlega gengið frá þessum gjörningi. ÞETTA ER HINN FRÆGI AÐSKILNAÐUR RÍKIS OG KIRKJU! Reikningslegar forsendur yfirtöku ríkisins hafa hins vegar aldrei verið birtar og heyrt hef ég að þær séu ekki til.
Skoðanakönnun Gallups um aðskilnað ríkis og kirkju frá því um helgina. En það er líka rétt hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána var aðskilnaðurinn felldur með talsverðum meirihluta. Þá hafði kirkjan líka talsverðan viðbúnað.