Tvær skoðanakannanir í röð benda til þess að hagur Sjálfstæðisflokksins sé að vænkast. Í þjóðarpúlsi Gallup er hann með 28 prósenta fylgi, en í könnun Fréttablaðsins fær hann 30,7 prósent.
Framsókn 11,8 hjá Gallup en 11,7 prósent hjá Fréttablaðinu. Fylgi hans stefnir í að verða þrefalt minna en Sjálfstæðisflokksins. Hann er næst minnsti flokkurinn í báðum könnunum, aðeins Píratar eru minni.
Bjarni Benediktsson segir við Fréttablaðið:
„Ég er ánægður með þetta, en tek tölunum með ró. Ég held að fólk sé farið að finna fyrir stöðugleika og kaupmáttaraukningu.“
En hví er Sjálfstæðisflokknum þakkað fyrir þetta en ekki Framsókn? Það er reyndar ekki ný saga í íslenskum stjórmálum að flokkar sem vinna með Sjálfstæðisflokknum eiga í erfiðleikum, þeir fá að gjalda fyrir það sem miður fer. En nú á Framsóknarflokkurinn sjálfan forsætisráðherrann.
Önnur tíðindi eru að Samfylkingin er afgerandi stærri en Björt framtíð í báðum könnunum, með 19,3 prósent hjá Gallup og 20 prósent hjá Fréttablaðinu. Það hlýtur að vera ákveðinn léttir fyrir Samfylkinguna.